Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Margir hissa á ummælum Trumps um Púertó Ríkó

12.09.2018 - 00:58
Mynd: EPA-EFE / EPA
Donald Trump sagði við blaðamenn í Hvíta húsinu í dag að aðgerðir stjórnvalda í Púertó Ríkó í fyrra vegna fellibylsins Maríu hefðu verið stórkostlegar. Um þrjú þúsund manns létu lífið af völdum fellibylsins, og loks náði að koma á fullu rafmagni í eyríkinu í ágúst, 11 mánuðum eftir fellibylinn.

Trump lét ummælin falla þegar blaðamaður spurði hann hvaða lærdóm mætti draga af viðbrögðunum eftir Maríu, nú þegar fellibylurinn Flórens er á leiðinni að austurströnd Bandaríkjanna. Trump sagði eftirköst Maríu þau erfiðustu vegna náttúru eyjunnar. Hann sagði samstarf ríkisstjóra Púertó Ríkó með almannavörnum Bandaríkjanna, lögreglu og öðrum sem komu að björgunaraðgerðum hafa verið frábært. Þá sagðist hann telja Púertó Ríkó vera ótrúlegt afrek sem ekki hafi hlotið verðskuldað lof.

Carmen Yulin Cruz, borgarstjóri San Juan höfuðborg Púertó Ríkó, gagnrýndi Trump fyrir að hreykja sér af viðbrögðum stjórnvalda. Hún skrifaði á Twitter að ef Trump haldi að þrjú þúsund mannslíf séu til marks um vel heppnaðar aðgerðir verði guð að hjálpa öllum.

María olli miklum skemmdum þegar hún reið yfir Púerto Ríkó um miðjan september í fyrra. Innviðir skemmdust verulega og illa gekk að gera við rafmagnsleiðslur. Í fyrstu var opinber tala dauðsfalla af völdum fellibylsins 64. Eftir ítarlega rannsókn sérfræðinga við George Washington háskóla var ljóst að nærri þrjú þúsund hafi látið lífið af völdum fellibylsins.

Öldungadeildarþingmennirnir Bernie Sanders og Chuck Schumer voru meðal þeirra sem gagnrýndu Trump fyrir ummælin. Sanders skrifaði á Twitter að það væri ekki góður árangur að þrjú þúsund hafi látið lífið. Það sé harmleikur og skammarlegt.

Schumer sagði ummæli forsetans móðgandi, meiðandi og hreinlega lygi.

 

Fólk flýr Flórens

Langar raðir bíla hafa síðdegis og í kvöld verið á þjóðvegum frá strandhéruðum í austurhluta Bandaríkjanna inn í land vegna fellibylsins Flórens. Allt að einni komma sjö milljónum íbúanna hefur verið skipað að flýja vegna yfirvofandi fárviðris og flóða í ríkjunum Suður- og Norður-Karólínu, Virginíu og Maryland. Þar hefur verið lýst yfir neyðarástandi, sem og í höfuðborginni Washington. 

Flórens hefur síðustu dægrin verið flokkaður sem fjögurra stigs fellibylur. Bandarískir veðurfræðingar gera ráð fyrir að óveðrið komi á land seint á fimmtudagskvöld eða aðfaranótt föstudagsins. Þá er talið að nokkuð hafi dregið úr vindhraðanum þannig að það verði komið niður á þriðja stigið. Tvær óveðurslægðir fylgja í kjölfar Flórens, fellibylurinn Helena og hitabeltisstormurinn Ísak. Hvorug þeirra er talin nándar nærri eins hættuleg og Flórens.