Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Margbrotið eðli mannsins í Skítabæ

Mynd: Andrea Morales / Serial Productions

Margbrotið eðli mannsins í Skítabæ

30.03.2017 - 16:38

Höfundar

Margir vinsælir hlaðvarpsdagskrárgerðamenn tóku nýlega höndum saman og gáfu út sjö þátta hlaðvarpsþáttaröð, sem nefnist S-Town. Þáttanna hefur verið beðið með óþreyju en æsingurinn er svo mikill að þriggja mínútna kynningabútur úr þáttaröðinni hefur trónað á toppi vinsældalista hlaðvarpa í itunes síðustu þrjár vikur.

Reynslumikið ritstjórnarteymi

S-Town er meðal annarra unnið af Julie Snyder og Söruh Koenig, framleiðendum geisivinsælu hlaðvarpsþáttaraðarinnar Serial, Starlee Kine sem stýrir költ hlaðvarpsþáttunum The Mystery Show, og þeim Ira Glass og Brian Reed úr This American Life. Sá síðarnefndi, Brian Reed, fer með hlutverk sögumanns í S-Town.

Skítabærinn

Þættirnir eiga sér stað í smábænum Woodstock í Alabama-fylki Bandaríkjanna. Hugmyndin að þáttaröðinni spratt er framleiðendum This American Life barst undarlegur tölvupóstur sem bar yfirskriftina „John B McLemore býr í skítabæ, Alabama‘‘ eða „Shit Town, Alabama‘‘. Shit Town, skítabær, þaðan kemur nafn þáttanna.

Í bréfinu segir John McLemore frá óupplýstu morði í bænum, og vill fá aðstoð þáttastjórnanda við að rannsaka það. Brian Reed, sögumaður þáttanna, tekur boðinu og ferðast til skítabæjarins. Sagan fer þó hratt úr því að vera morðgáta yfir í sérkennilega, á tímum dapurlega, heimildarþætti um allt og ekkert. Um fólk, um stjórnmál, um börn, um unglinga, um eldra fólk, um fjölskyldutengsl, um vinatengsl, um áföll, um peninga, um óvænt dauðsföll, um völundarhús, um klukkur, um … loftslagsmál. Rúsínan í pylsuendanum er síðan hin óvænta fjársjóðsleit sem þáttastjórnandi og söguhetjur standa allt í einu frammi fyrir.

Ekki reynt að feta í fótspor Serial

Framleiðendur S-Town segja í blaðaviðtölum að nýja þáttaserían sé ekkert í líkingu við Serial, að hér séu ekki á ferðinni þættir sem ætla sér að feta í fótspor Serial – jú hér er umfjöllunarefnið að hluta til sakamál, en útgangspunktur hvers þáttar er hið margbrotna eðli mannsins.

Julie Snyder sagði í viðtali við vefmiðilinn WIRED að Serial hefðu verið unnir eftir líkani sjónvarpsframleiðslu, hvað varðar S-Town þá var markmiðið að segja söguna eftir formúlu skáldsagnagerðar. S-Town er saga alvöru fólks, alvöru smábæjar, og alvöru atburðarása. Ritstjórnarteymið byggir söguna upp eftir minni skáldsagna þar sem hlustandi fer inn í tiltekinn heim, veit ekki beint hvert förinni er heitið en finnur sig knúinn til þess að halda áfram að leggja við hlustir.

Allir sjö þættir hlaðvarpsins S-Town eða Skítabærinn, voru gefnir út þriðjudaginn var. Þeir eru aðgengilegir á vef S-Town en hér má hlýða fyrsta þátt:

Tengdar fréttir

Mannlíf

Serial: Ný leið til að segja útvarpssögur