Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Margar athugasemdir við persónuverndarfrumvarp

12.06.2018 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðherra segir fjölda athugasemda sem gerðar hafa verið við frumvarp um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga ekki koma sér á óvart. Margar ábendingar hafi verið gagnlegar en aðrar sýnist sprottnar af misskilningi eða vanþekkingu. Tekið hafi verið tillit til margra þeirra, að því marki sem mögulegt sé. 

„Þetta er innleiðing á reglugerð Evrópusambandsins og hana þarf að innleiða nánast eins og hún kemur af kúnni, ef svo má að orði komast,“ segir Sigríður Andersen.

Svigrúm sé til breytinga á örfáaum atriðum. „En í mörgum tilfellum erum við bara að leggja til óbreytt réttarástand. Þannig að þótt sum ákvæðin hafi komið mörgum umsagnaraðilum á óvart, þá höfum við þurft að benda á að þetta eru eldgömul ákvæði sem verið hafa í lögum í 18 ár.“

Frumvarpið verður líklega að lögum á Alþingi í kvöld. 
 

 

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV