Mannslíkaminn hefur ótrúlegt kuldaþol

31.05.2018 - 11:59
Íslandsmeistaramót í ísbaði á Blönduósi 2017
 Mynd: Benedikt LaFleur
„Við sjáum það að í öllum sundlaugum eru komnir kaldir pottar og þeir eru mjög vinsælir hjá öllum aldurshópum,“ segir Benedikt LaFleur skipuleggjandi Íslandsmeistaramóts í ísbaði sem fer fram í Grindavík í dag.

Benedikt er mikill áhugamaður um köld böð og skrifaði hann meistararitgerð sína í ferðamálafræðum um áhrif sjósunds á líkamlega og andlega heilsu þeirra sem það stunda.  

Hann segir tilgang mótsins fyrst og fremst þann að vekja athygli á heilsugildi kaldra baða. Undanfarin ár hafi hafi safnast saman hér á landi mikil þekking og reynsla af sjávarböðum sem geti komið til með að nýtast vel í þjónustu við ferðamenn.

Rannsóknir hafi þá sýnt að köld böð geti gagnast fólki sem glímir við langvarandi verki, s.s. liðagigt. Einnig geti þau styrkt æðakerfið og bætt almenna vellíðan.Þó svo að tilhugsunin um ísbað kunni að hljóma uggvænleg í eyrum margra, segir Benedikt þau með öllu hættulaus fyrir flest fólk. Sumir finni fyrir minni háttar óþægindum en það heyri til undantekninga. Hjartveikum sé hins vegar ekki ráðlagt að taka þátt nema samkvæmt læknisráði.

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt LaFleur

 

Mannslíkaminn hefur mun meira þol gagnvart kulda en margir gera sér grein fyrir, segir Benedikt.

Guðlaugur Friðþórsson, sem komst lífs af eftir skipbrot austur af Heimaey veturinn 1984, og tókst að synda sex kílómetra í land, hafi sýnt að í slíkum aðstæðum skiptir mestu máli að vera vel syndur.

Afrek Guðlaugs er að sjálfsögðu einstakt, en Benedikt telur að flestir gætu lifað af allt að klukkustund í köldum sjó. Fleiri hafi lifað af sjóslys síðustu áratugi en áður þekktist og hafi almenn sundkennsla mikið um það að segja.

Núverandi Íslandsmet í ísbaði á Vilhjálmur Andri Einarsson og er það 20 mínútur. Benedikt segist þó hafa heyrt að einhverjir þeirra keppenda sem þátt taka í ár hafi setið í yfir 30 mínútur. Það sé þó óstaðfest og mikil spenna ríki fyrir úrslitum mótsins.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt LaFleur
Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi