Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mannslíkaminn fyrirferðamikill á Listahátíð

20.05.2016 - 19:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Listahátíð í Reykjavík verður sett með formlegum hætti á morgun. 27 viðburðir eru á hátíðinni og er mannslíkaminn fyrirferðamikill á hátíðinni í ár.

Þetta er í þrítugasta skipti sem Listahátíð í Reykjavík er haldin. Meðal listamanna sem fram koma á hátíðinni í ár er belgíski myndlistarmaðurinn Berlinde De Bruyckere. Verk hennar, sem verða til sýnis í Listasafni Íslands fram í september eru kraftmiklar, afmyndaðar fígúrur; hestar og menn - sem hún segir kalla fram frásagnir og upplifanir úr nútímanum. Þetta er hennar fyrsta sýning á Íslandi og er opnunarsýning Listahátíðar.

Listahátíð er sett með formlegum hætti á morgun klukkan þrjú. Hátíðin er umfangsmeiri en undanfarin ár og sérstök áhersla er lögð á mannslíkamann, dans og hreyfingu, en einnig tónlist og hönnun.

„Ég myndi segja að það væri meiri breidd í henni en oft áður, svo ég taki sem dæmi,dansinn. Það er mikill dans á hátíðnni, allt frá street dansi til þess besta sem gerist í klassískum ballet á heimsmælikvarða með San Fransisco balletnum,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. 

 

 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður