Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mannskæð flóð í Víetnam

13.12.2018 - 07:13
Erlent · Asía · Víetnam · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - Vietnam News Agency
Úrhellisrigning í miðhluta Víetnams að undanförnu hefur orðið að minnsta kosti þrettán manns að bana. Eins er saknað. Úrkoman brast á um síðustu helgi. Auk fólksins hafa á annað hundrað þúsund nautgripir og kjúklingar drukknað. Þá hafa orðið flóð í nokkrum borgum, þar á meðal Danang. Haft er eftir talsmanni Almannavarna að útlit sé fyrir áfram rigni næstu daga.

Uppskera bænda á um það bil tólf þúsund hekturum ræktarlands er ónýt. Nokkur svæði í tveimur héruðum eru umflotin eftir að vatni var hleypt úr miðlunarlónum virkjana.

Tiltölulega algengt er að hressilega rigni í Víetnam á fellibyljatímanum milli maí og október. Úrhellið að undanförnu þykir koma á óvenjulegum tíma. Rúmlega tvö hundruð manns hafa látið lífið í Víetnam á árinu vegna óveðurs. Þeir voru 389 allt árið í fyrra.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV