Mannskæð flóð í Mósambík og Malaví

13.03.2019 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Flóð af völdum úrhellisrigningar í mið- og norðurhluta Mósambíks hafa orðið að minnsta kosti sextíu og sex manns að bana síðustu daga. Stjórnvöld hafa lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi vegna vatnsveðursins. Að þeirra sögn hafa á sjötta þúsund íbúðarhús eyðilagst.

 

Þessu til viðbótar eru átján sjúkrahús ónýt og skólar stórskemmdir eða ónýtir. Yfir 140 þúsund manns eiga í erfiðleikum af þessum sökum og uppskera er ónýt á 170 þúsund hekturum lands.

Byrjað er að flytja fólk frá svæðum þar sem flóðahætta er mest. Stjórnvöld hafa leitað til alþjóðlega hjálparsamtaka um aðstoð vegna ástandsins.

Í nágrannaríkinu Malaví hafa flóðin kostað að minnsta kosti fjörutíu og fimm manns lífið. Yfir 230 þúsund manns eru án húsaskjóls. Veðurstofan í Malaví varar við enn meiri rigningu í suðurhluta landsins frá fimmtudegi til sunnudags.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi