Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mannskæð átök í aðdraganda kosninga

12.02.2019 - 02:11
Mynd með færslu
Stuðningsfólk Atikus Abubakars, forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar, á framboðsfundi í borginni Kano. Ekki fer sögum af átökum á þeim fundi.  Mynd:
Fimm féllu í valinn þegar til blóðugra átaka kom milli meðlima og stuðningsmanna tveggja stærstu stjórnmálaflokka Nígeríu í suðausturhluta landsins á sunnudag. Hinir föllnu, sem allir voru félagar í Framfaraflokknum, ríkisstjórnarflokki Buharis forseta, voru skotnir í íbúðarhúsi í bænum Effrun, nærri olíuvinnsluborginni Warri, samkvæmt upplýsingum lögreglu, skömmu fyrir miðnætti á sunnudagskvöld.

Andrew Aniamaka, talsmaður lögreglu, segir líklegast að ódæðið hafi verið hefndarárás pólitískra andstæðinga hinna látnu, en morðin voru framin eftir að til fjölmennra og mannskæðra átaka kom milli ungra stuðningsmanna frambjóðenda flokkanna tveggja, Framfaraflokksins og Lýðræðisflokks fólksins, fyrir rúmri viku. Þar féllu þrjár manneskjur í valinn, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofnnar, og tugir særðust.

Nígeríubúar ganga að kjörborðinu á laugardag og kjósa hvort tveggja forseta og þingmenn. Muhammadu Buhari freistar þess að tryggja sér áframhaldandi setu á forsetastóli, annað kjörtímabilið í röð. Helsti keppinautur hans er fyrrverandi varaforseti, Atiku Abubakar, og segja stjórnmálaskýrendur allar líkur á að afar mjótt verði á munum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV