Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Manneskjan getur breytt heiminum

Mynd: Århus Teater / Århus Teater

Manneskjan getur breytt heiminum

22.06.2018 - 09:29

Höfundar

María Kristjánsdóttir sá Eddu eftir Robert Wilson á Listahátíð og fór að velta fyrir sér örlögum heimsins og hvað sé í mannanna valdi.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Listahátíð í Reykjavík var að þessu sinni mikil hátíð. Sumum fannst þó að hún hefði mátt teygja sig yfir lengra tímabil og sleppa hefði mátt heimsmeistaramótinu í knattspyrnu rétt á meðan. Okkur í Reykjavíkurdreifbýlinu gladdi auðvitað sérstaklega að ekki þyrfti að storma niður í 101 til að sjá risaeðlur og það gladdi mig enn meir að bandaríski leikhúsíkoninn Robert Wilson var ekki sú risaeðla sem ég óttaðist að hann væri. Sá nefnilega sýningu hans á „Dauða Dantons“ eftir Georg Büchner á níunda áratug síðustu aldar í Berlín og leiddist hún ákaflega. Leiði minn var hugmyndafræðilegs eðlis því hann sneri snjallri pælingu Büchners á ágreiningi foringja frönsku byltingarinnar upp í brúðuleikhús þar sem aðalpersónurnar kipptust , endurtekið, höktandi yfir sviðið í „slómósjón“ eins og væru þeir brúður sem stjórnað væri með ósýnilegum þráðum af óþekktum öflum. Hann var þá að vísu að vísa í annan texta Büchners en slík örlagahyggja féll mér ekki alls kostar vel. Því ég hef lengi haldið í þá von að manneskjan geti breytt heiminum. Þarna í Berlín var Wilson á hátindi frægðar sinnar svo ekki taldi ég mig eiga von á góðu í Borgarleikhúsinu á mánudagskvöldið þegar Edda hans var sýnd þar á nýnorsku af Det norske teatret í Osló.

Það var huggun harmi gegn að vita að Jon Fosse sá ágæti norski rithöfundur og leikskáld hefði raðað saman textunum úr Eddukvæðum einkum Völuspá, umraðað og bætt þar við en breytt litlu, að sjálfs hans sögn, en látið textana hverfast um tilraun Óðins til að skilja sögu ása.

En það er sýn Roberts Wilson á æsina sem textinn, leikarinn, leikmyndin, lýsingin beygja sig skilyrðislaust undir; á æfingum þessa leikstjóra og myndhöfundar er ekki beðið eftir því að leikarinn finni sálfræðilega hvata fyrir gjörðum sínum eða sé yfirleitt að flækjast fyrir með skoðanir sínar eða eigin vilja, hann er aðeins einn þáttur í myndinni, ekki mikilvægari en litur eða ljós, hann hreyfir sig eftir ákveðnum nákvæmum munstrum og gefur frá sér hljóð oft án sýnilegs markmiðs eða samhengis. Það er helst tónlistin sem Wilson getur ekki alltaf beygt undir vilja sinn og heildarsýn, hún nær að eiga sér sjálfstætt líf. Hún tekur mikið pláss í þessari Eddusýningu því segja má að ef einhvers staðar sé hægt að staðsetja sýninguna í þekktum leikhúsfræðilegum kimum þá megi kalla hana söngleik um goð. Söngvar, sungnir á ensku, og tónlist bandaríska kvenna tvíeykisins CocoRosie eru gegnumgangandi í verkinu og brúa milli atriða. Arvo Pärt á þar líka flottar innkomur.

En hverjir eru æsir og jötnar Wilsons það eru einfaldlega nútíma erkitýpísk, amerísk og japönsk goð. Óðinn, auðvitað í ýmsum gervum, birtist okkur fyrst í líki Elvis Presleys hangandi í Yggdrasil, leikandi á gítar svo kynnir völvan þau til leiks eitt af öðru Loka, Þór, Freyju, Frey, Frigg, Hym. Þau minna í bland á Michael Jackson, Madonnu, fígúrur úr japönsku mangateiknimyndum og myndbönd CocoRosies í gróteskum búningum og gervum. Nákvæmar, stílfærðar, oft líka gróteskar hreyfingar og látbragð um margt skylt japönskum leiklistarhefðum. Hjörturinn, Fenrisúlfur, Miðgarðsormurinn eru mættir í risastærð en einnig stór skjaldbaka sem mjakar sér yfir sviðið og syngur tvísöng með Miðgarðsormi.

Svo virðist sem Wilson hafi sótt mikið í Youtube meðan hann var að skapa þessa yfirdrifnu mynd af kjánalegum guðum hoppandi, ropandi, hlæjandi blikkdósahlátri, svíkjandi, drepandi, kítandi um keisarans skegg – skynjandi varla eða alveg sama um að völvan unga, nær því á barmi hysteríu í hlátursköstum, boðar Ragnarök. Laxness gerði þetta svolítið öðruvísi í Gerplu þegar hann afbyggði hetjuna en markmiðið, húmorinn skyldur.

Þó sýningin hafi ekki beina atburðarás, heldur raðist myndir og söngur upp án sýnilegs samhengis . Þó hún á stórum köflum kalli fram einungis fagurfræðilega nautn andspæmis táknum, myndum þar sem leikið er með andstæður, leikið með ljós og liti og þar sem hljóð, hreyfingar, ljós leika saman - oft á kómískan hátt. Og hún kalli fram mikla undrun gagnvart alveg nýrri notkun á reykvélum. Þá skilar hún áhorfanda ekki aðeins nær gleymdum minnum frá skólagöngunni um Þór og hamarinn, dauða Baldurs, mistilteininn, svik Loka, Fenrisúlfinn heldur varar öll heildarmyndin og við Ragnarökum. Á bak við augnalokin festast ógnvænleg dökk reykjarský í ramma, meðal annars tengd textanum „loft er eitrað“. Hægur róður Óðins í bát yfir fljót í lokin og völvan með sína von „sér hún upp koma öðru sinni jörð úr ægi iðjagræna“ er falleg en slekkur ekki kvíðann sem fyrri myndin kveikti.

Ósjálfrátt kom upp í huga mér gömul teiknimyndasaga sem annar Bandaríkjamaður James Thurber smíðaði, og heitir „Síðasta blómið“ um tilurð blóma og manna og stríðsrekstur þeirra en í því striði var að lokum öllu eytt nema einni stúlku, einum pilti og einu blómi. Mér varð ljóst þarna í Borgarleikhúsinu að Thurber hafði líka lesið Völuspá. Og vissulega er vonin í lokin í báðum verkum þessara Bandaríkjamanna falleg, en verður harla léttvæg andspænis þeirri vitneskju sem við höfum um stöðu loftslagamála í dag og afstöðu Bandaríkjamanna til hennar. En eigum við ekki að halda í hana, þessa von um að manneskjan geti breytt heiminum, þó goðin í menningarheimi okkar séu hlægileg.