Tengslamyndunaruppeldi leggur mikla áherslu á tengsl barns og foreldris, til dæmis við brjóstagjöf en það dæmi sýnir kannski að stefnan beinist að miklu leyti að mæðrum. Áherslan er á umhyggju-og tilfinningahlið foreldris og barns og kenningin er sú að slík styðjandi samskipti skili frekar sjálfstæðum einstaklingum sem líði vel í eigin skinni. Snerting er mikilvæg og foreldrar eru hvattir til þess að deila svokölluðum fjölskyldurúmum þar sem börn og foreldrar sofa saman í einni kös. Tengslamyndunaruppeldi bendir réttilega á að það séu fyrst og fremst félagslegar venjur sem stjórni hvort og hve lengi mæður gefi brjóst en mæðum ætti að vera í sjálfsvald sett að ákveða hvernig skuli huga að brjóstagjöf.
Virðingafullt uppeldi beinir sjónum sínum að barninu sjálfu sem tilfinninga- og þekkingaveru. Það beinir því að foreldrum að viðurkenna tilfinningar barna sinna í stað að segja barninu hreinlega að hætta að hafa þær. Skýr rammi og rútína á vissulega að vera til staðar en einnig skilningur á því að ramminn getur kallað fram erfiðar tilfinningar hjá barninu. Þannig eru setningar á borð við: „ég sé að þú ert reiður en það er ekki í boði núna að fá nammi“ ákjósanlegri heldur en „hættu að vera svona reiður“ eða „skammastu þín“. Virðingafullt uppeldi býður upp á annars konar orðfæri með mikla möguleika en í amstri hversdagsleikans getur verið svolítið erfitt að hreinlega muna eftir að beita því.
Mammviskubitið
Á íslensku hefur orðið til hið afar merkilega orð „mammviskubit“ úr orðunum mamma og samviskubit. Þetta orð er ekki aðeins merki um frjósemi íslenskunnar á þessari öld enskunnar heldur hlýtur einnig að gefa til kynna áhyggjur og kvíða mæðra yfir því að þær séu ekki að standa sig í foreldrahlutverkinu. Nú veit ég ekki hvenær þetta orð fór á stjá en kona er farin að heyra það víða. Mér hefur sjálfri verið bent á tilvist mammviskubitsins þegar ég ræði ýmsar áhyggjur mínar í barnauppeldinu.
Af hverju eru mæður með þetta samviskubit? Sérstaklega nú á þeim tímum þar sem feður taka æ meiri þátt í barnauppeldinu? Ég held að svörin við þessum spurningum hljóti að felast í mörgum þáttum en huga ber að samfélagsbreytingum síðustu áratuga sem og þeim væntingum sem gerðar eru til fólks. Konum býðst nú fleiri hlutverk í formi ýmissa starfa en eru ekkert hættar að eignast börn og vera mæður. Eins og hefur verið mikið í kastljósinu síðustu ár hefur þetta orðið til þess að margar mæður vinna svokallaða „tvöfalda vakt“, fara í vinnuna, koma svo heim og þurfa að sinna ótal húsverkum og auðvitað börnunum. Þótt konur hafi fjölmennt á vinnumarkað virðast karlmenn ekki hafa tekið yfir byrðir heimilisins sem skyldi sem hlýtur að þýða aukið álag á mæður. Þessi þróun á sér einnig sálrænar hliðar; margar stelpur hafa búið sig undir það alla tíð að verða mæður, fylgst með sínum eigin mæðrum og finnst því eins og ákveðnar væntingar séu gerðar til þeirra sem strákar finna kannski ekki fyrir.
Snjallsímar og brjóstagjöf
Út frá þessari stöðu þurfa mömmurnar svo að sigla í gegnum allar þessar hugmyndir um uppeldi. Er ég nógu umhyggjusöm og nærandi ef ég hangi í snallsímanum yfir maraþon-brjóstadrykkju barnsins? Hvað myndu uppeldis-frumkvöðlarnir segja ef þeir sæju mig núna öskrandi á barnið sem hættir ekki að krota á veggina; öskrandi því ég er svo þreytt eftir daginn! Hvað myndi læknirinn segja yfir því að ég leyfi barninu enn að fá pela á næturnar; ég vil bara sofa, ég vil bara að allir sofi, ég vil bara að hjólin rúlli!
Er ég að segja að uppeldisstefnur auki mammviskubitið? Nei. Ég held að nýjar hugmyndir um uppeldi séu af hinu góða og margar nýjar uppeldisstefnur virðast fylgja þeim tíðaranda sem er að fæðast og felst í því að sjá virkni allra manneskja og bera virðingu fyrir tilfinningalífi þeirra.
Lærdómsfýsn og tímaleysi
Mammviskubitið er að mínu mati frekar merki um hraðar samfélagsbreytingar þar sem konur, mæður eru að reyna að fóta sig innan ólíkra hlutverka og uppfylla alls kyns væntingar sem oft stangast á. Það er merki um samfélag sem hefur gert þá kröfu að allar manneskjur sinni launavinnu en hefur ekki stytt vinnudaginn þar á móti. Það er merki um samfélag þar sem foreldrar koma þreytt heim og sinna heimilisverkum og líður eins og það sinni börnum ekki nógu vel. Skyndibiti og sjálfsstýrðar ryksugur eru ekki svarið við heimilisverkum og skort á tíma með börnunum, þótt þau plástri kannski tímaleysið. Konur, mæður hafa mikla lærdómsfýsn – eins og sjá má á kynjahlutföllum háskóla – og eru jafnvel aðeins of meðvitaðar um að alltaf megi gera betur. Því er ekki skrýtið að þessi blanda af lærdómsfýsn og tímaleysi leiði til mammviskubits.
Þráin eftir meiri skilningi á því ótrúlega ferli þegar nýtt barn kemur í heiminn og byrjar að grandskoða umhverfi sitt, er hreinlega hluti af því að njóta þessa nýja lífs sem maður á með barninu. Það á ekki að nýta uppeldisstefnur sem refsivönd, þær eiga ekki að leiða til mammviskubits, ofan á allt hitt hversdagsstressið. Eins og með aðra hugmyndastrauma og stefnur eiga uppeldisstefnur að nýtast sem ný gleraugu sem hægt er að setja upp til þess að sjá heiminn í öðrum litum. Þannig getur maður geymt allt þetta litróf heimsins innra með sér þegar maður tekur þátt í þessu ótrúlega lífi með börnunum sem veltast um, skoða allt, smakka allt, krota á allt og svara öllu með sinni eigin lífsorku.