Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mammút og Árstíðir og Paul Simon!

Mynd með færslu
 Mynd: Mammút - Rás 2

Mammút og Árstíðir og Paul Simon!

07.09.2017 - 10:03

Höfundar

Við heyrum upptökur Rásar 2 frá Iceland Airwaves 2016 með Mammút og Árstíðum og svo órafmagnaða tónleika með Paul Simon frá 1992.

Senn líður að hausti og á haustin fáum við Iceland Airwaves sem er glæsileg í ár eins og undanfarin ár. En í ár verður Airwaves líka á Akureyri í fyrsta sinn og þar verður spilað á þremur stöðum: í Hofi, á Græna hattinum og áPósthúsbarnum. Erlendir og innlendir listamenn koma fram en meðal þeirra eru breski plötusnúðurinn Mura Masa, Ásgeir Trausti, Emilíana Torrini & The Colorist Orchestra, Vök og Milkywhale. Þá verður rappveisla í Græna Hattinum þar sem Aron Can, Emmsjé Gauti og Cyber koma t.d. fram.

Megas mun koma fram á stóra sviði Þjóðleikhússins fimmtudaginn 2. nóvember. Kór og hljómsveit fylgir Megasi en Þórður Magnússon (sonur Megasar) hefur útsett sérstaklega fyrir þessa tónleika í samstarfi við Hilmar Örn Agnarsson organista og kórstjóra.

Meðal annara sem kom fram á Airwaves eru Fleet Foxes, Billy Bragg, Mumford & Sons, Maus og svo margir margir fleiri! Glerakur, Grísalappalísa og Glowie. Gus Gus, Ham, Jón Jónsson, One Week Wonder, Reykjavíkurdætur og Pink Street Boys, Tappi Tíkarrass, Steflon Don og Sturla Atlas og svo framv... Þið sjáið dagskrána i heild sinni HÉR.

En í Konsert í kvöld heyrum við upptökur Rásar 2 frá Airwaves 2016 með Árstíðum í Fríkirkjunni og Mammút í Valsheimilinu.

Mammút tók þátt í Músíktilraunum árið 2004 og sigraði. 2006 kom fyrsta platan út (Mammút) og svo plata tvö, Karkari, 2008.

Það var ýmislegt sem olli því að það liðu 5 ár milli platna númer tvö og þrjú, en platan Komdu til mín svarta systir kom loksins út 2013 og valti mikla athygli og er að margra mati ein besta plata þess árs amk.

Núna fyrir skemmstu kom svo fjórða platan út og sú fyrsta sem kemur út á alþjóðamarkaði, en Mammút er á samningi hjá Bella Union sem er eitt helsta og virtasta óháða útgáfufyrirtæki Bretlands með listamenn eins og John Grant, Beach House, Father John Misty, Laura Veirs og Susanne Sundfør á sínum snærum Hún er öll sungin á ensku og hefur verið að fá frábæra dóma.

Nýja platan heitir Kinder Versions og Mammút spilaði eingöngu lög af henni á síðustu Airwaves-hátíð. Rás 2 var á staðnum og við heyrum það í Konsert. EN Mammút skipa:

Alexandra Baldursdóttir – gítar
Andri Bjartur Jakobsson – trommur
Arnar Pétursson – gítar
Ása Dýradóttir – bassi
Katrína Mogensen - söngur

Mammút ætlar að halda útgáfutónleika í Reykjavík í október.

Hljómsveitin Árstíðir verður 10 ára á næsta ári. Árstíðir skipa í dag þeir Daníel Auðunsson (gítar), Gunnar Már Jakobsson (gítar) og Ragnar Ólafsson (baritone-gítar). Þegar þeir tóku upp fyrstu plötuna (Árstíðir) bættust þeir Hallgrímur Jónas Jensson (selló) og Jón Elísson (píano) í hópinn og árstíðir var fimm manna band. 2010 bættist svo sjötti maðurinn í hópinn, fiðluleikarinn Karl James Pestka. Þeir Jón og Hallgrímur yfirgáfu sveitina síða árs 2013 og Karl James Pestka 2016 þannig að í dag er sveitin eins skipuð og í upphafi.

Árstíðir hafa sent frá sér fjórar stórar plötur og tvær EP plötur en þesa dagana er í smíðum plata sem Árstíðir eru að gera með Magnúsi Þór Sigmundssyni sem á að koma út með haustinu.

Árstíðir syngja raddað, minna á köflum á CS&N – nema hvað það er alltaf sól hjá þeim í Ameríkunni á meðan tungl, myrkur, snjór og kuldi einkennir Árstíðir og þeirra músík. Albert Finnbogason hljóðritaði Árstíðir í Fríkirkjuni í Reykjavík fyrir Rás 2 á síðustu Áirwaves hátíð og við heyrum það í Konsert kvöldsins.

Í lokin verður svo boðið upp á rúman hálftíma með Paul Simon frá Unplugged tónleikum sem fóru fram í New York árið 1992.

Konsert er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
[email protected]