Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Málverkið er svakalega breiður faðmur

Mynd: Hafnarborg / RÚV samsett / Hafnarborg / RÚV samsett

Málverkið er svakalega breiður faðmur

03.04.2018 - 11:10

Höfundar

„Myndlist verður að vera opin til túlkunar,“ segir myndlistarmaðurinn Jón Axel Björnsson sem sýnir ný málverk og vatnslitamyndir á sýningunni Afstæði í Hafnarborg. Verk Jóns eru á jarðhæð safnsins, í Sverrissal, en á efri hæðinni sýnir Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir á sýningunni Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur. Hún er sammála Jóni um að ekki megi þröngva merkingu og túlkun upp á áhorfandann.

Mannleg tilvist til umfjöllunar

„Einhvern tímann í gamladaga sagði ég við vini mína að ég væri sennilega trúarlegasti málarari landsins og ég er enn smávegis að hlægja að því og það er sennilega ekki rétt. Ég er samt að fjalla um mannlega tilvist og þá komumst við ekki hjá trúnni og hvernig við velkjumst andspænis þeim kennisetningum öllum. Ég lít á myndlist sem tjáningarform. Þetta tæki á að yfirfæra einhverja meiningu eða skoðun og ég vona að sú hleðsla í myndinni skili sér tíl áhorfenda. Það er samt enginn rétttrúnaður í þessu,“ segir Jón Axel sem vill alls ekki þröngva sínum táknræna lestri á verkunum upp á áhorfendur.

Nýja málverkið til bjargar

„Þegar ég kom úr skóla var „konseptlistin“ alls ráðandi. Þar voru bara hliðverðir sem stoppuðu allt annað af. Það var andstyggilegt ástand sem unga fólkið er nú fyrir löngu búið að sprengja upp. Ég var alltaf spyrtur saman við þýska og ítalska málara sem var alveg rétt því að það sem bjargaði mér var auðvitað Nýja málverkið á sínum tíma. Þá mátti allt í einu gera eitthvað annað en það sem „eftirlitsnefndin“ ákvað. Það hugsa ekki allir eins og það tala ekki allir eins og málverkið er svakalega breiður faðmur.“

Skúlptúrar koma út úr málverkum Jóhönnu

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir sýnir margs konar verk (málverk, skúlptúra og myndbönd) í innsetningu í stóra sal Hafnarborgar á sýningu sem hún kallar Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur. „Titillinn kom úr ljóðabók sem ég gaf út í fyrra á ensku,“ segir Jóhanna sem búsett er í Antwerpen. „Þetta er bara einhver innblástur þar sem ég er í samtali við ljóðrænu og lífið. Hér á sýningunni eru eldri og nýrri verk, málverk og skúlptúrar sem fara eiginlega að „poppa“ út úr þeim og skríða fram á gólfið.“

Jóhanna segir sér mikilvægt að festast ekki í einum miðli. „Málverkið fyrir mér er andlegt en vinnan við skúlptúrana líkamlegri. Ég er líka byrjuð að gera gjörninga inn á milli. Ég vinn bara í flæðinu og í leik. Hreyfingin er það sem skiptir mig mestu máli en svo fattaði ég bara að ég er bara ljóðskáld alveg sama í hvaða miðli ég er að vinna.“

Í viðtalinu úr Víðsjá á Rás 1 hér að ofan er gerð tilraun til að fjalla um báðar þessar ólíku sýningar í Hafnarborg í einu, en nánar má lesa um þær á heimasíðu menningarmiðstöðvarinnar.