Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Málþing um matarleifar og sóun

18.03.2013 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Á málþingi um matarleifar og sóun í dag var boðið upp á hádegisverð úr hráefni sem annars hefði farið í ruslið. Talið er að heimilin í landinu fleygi 30 milljörðum króna árlega í formi matarafganga.

Á málþinginu í dag talaði Selina Juul, stofnandi hreyfingarinnar Stop spild af Mad og baráttukona gegn matarsóun í Danmörku. Hún segir að  að strax sem barn, nýflutt til Danmerkur frá Rússlandi, hafi hún tekið eftir þessum ósið og málefnið fái stöðugt meiri athygli. Hún hefur verið kölluð fyrir danska þingið, Evrópuþingið og á ráðstefnu hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún segir að meðal heimili hendi fimmta hverjum matarinnkaupapoka beint á haugana og það hljóti að vera eitthvað sem fólk vilji breyta. Til þess þurfi að skipuleggja innkaupin, nota það sem keypt er, vita hvað er til og elda úr afgöngum.

Juul tekur sem dæmi að verslanir geti gripið inn í með fyrir byggjandi aðgerðum eins og að hætta að bjóða upp á magnafslátt og þegar vörur séu komnar nálægt síðasta söludegi sé tilvalið að bjóða þær með miklum afslætti. Hún segir að það leysi engan vanda að leyfa fólki að hirða það sem fari í ruslagámana.

Kokkarnir töfruðu fram ýmsar kræsingar úr því sem annars hefði farið á haugana og segja alla geta tekið til í eigin ranni: „Alveg fyllilega, það er bara að passa að henda ekki hráefni, það er alltof mikið af mat sem fer í ruslið, og heimilin þyrftu mikið að taka í gegn hvað þau eru að henda hreinlega, það er alltof mikið", sagði Hinrik Carl Ellertsson.