Málið í farveg innan þingsins

03.12.2018 - 13:01
Mynd:  / 
Mál þingmannanna sex sem sátu að drykkju á barnum Klaustri og ummæli sem þar féllu eru komin í farveg innan þingsins, sögðu formenn þingflokka þriggja stjórnarandstöðuflokka eftir fund með forseta Alþingis í morgun.

„Við fórum yfir málið og ræddum hvernig við myndum ganga inn í daginn,“ segir Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, um fund þingflokksformanna með forseta Alþingis í morgun. „Við tökum á þessu máli á næstu dögum í þeim farvegum sem við höfum innan þingsins.“

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, var spurð um upphaf þingfundar og þingstörfin. „Hann mun að öllum líkindum hefjast á einhvers konar yfirlýsingu frá forseta Alþingis. Hann er á fundi forsætisnefndar núna þar sem er verið að klára þau mál. Við ræddum það á fundi þingflokksformanna, síðan er það í ferli inni í forsætisnefnd núna. Það er staðan líklega eins og hún er núna. Svo vonandi náum við að halda þingstörfum áfram eftir það. Það eru mörg stór mál sem bíða úrlausnar, þrátt fyrir allt þurfum við að sinna okkar starfi.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði að fundi loknum: „Niðurstaðan er að sjálfsögðu að þetta mun fara í ferli hjá forsætisnefnd sem vonandi tekur málið föstum tökum og hefur hraðar hendur með málsmeðferðina. Við erum einhuga með þetta og þessa málsmeðferð til að byrja með.“

Mynd:  / 
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV