Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Malarvegir anna ekki jafnmikilli umferð

28.07.2016 - 13:24
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Nær útilokað er að halda malarvegum við þegar yfir þrjú hundruð bílar aka um þá daglega. Þetta segir yfirverkstjóri í Búðardal. Enn eru stórir kaflar af malarvegum í umdæmi Vegagerðarinnar í Búðardal.

Umferð hefur aukist mikið á því svæði sem heyrir undir Vegagerðina í Búðardal. Þar eru fjölfarnir malarvegir eins og um Gufudalssveit, Laxárdalsheiði og um Skógarströnd á norðanverðu Snæfellsnesi. Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal, segir að um þessa vegi fari nú um sex hundruð bílar daglega sem er tvisvar sinnum það sem var fyrir fáeinum árum: „Þegar umferðin er orðin yfir þrjú hundruð bílar á dag þá er orðið nær útilokað að halda þessu við sem malarvegum.“

Sæmundur segir skort á fjármagni standa í vegi fyrir því að lagt sé bundið slitlag. Undanfarnar vikur hefur Vegagerðin malarborið veginn um Gufudalssveit og unnið er að bótum á hluta vegarins um Laxárdalsheiði. Sæmundur segir mikla umferð hafa gert verkið erfiðara en ella. Á veginn um Skógarströnd vantar malarslitlag en Sæmundur segir fjármagns- og efniskort standa í vegi fyrir bótum: „Ég held að það sé rétt að Skógarströndin sé sjötti hættilegasti malarvegur landsins hvað varðar fjölda umferðaróhappa.“ Hann telur að ekki einungis ástand vegarins skapi hættu heldur einnig fjöldi einbreiðra brúa. Á veginum frá Stykkishólmi að Búðardal, sem er 86 kílómetrar, séu þrettán einbreiðar brýr: „Þetta eru þeir mestu slysastaðir, þessar einbreiðu brýr og aðkoman að þeim mörgum, mjög hættuleg.“