Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Málari sem hugsar út fyrir rammann

Mynd: RÚV / RÚV

Málari sem hugsar út fyrir rammann

29.03.2017 - 16:14

Höfundar

Síbreytileg birta, litir og skuggar eru aðalsmerki belgísku listakonunnar Jeanine Cohen, sem opnaði sína þriðju einkasýningu hér á landi í Hverfisgalleríi á dögunum. Hún skilgreinir sig sem málara en verk hennar eru úr þrívíðum viðarrömmum, sem endurkasta björtum neonlitum á veggina og breytast eftir afstöðu áhorfandans.

Sýning Cohen nefnist The Space Between eða Rýmið á milli og skiptist í tvo hluta, Diagonal og Angle. Í fyrri hlutanum sýnir hún verk byggð upp af marglaga viðarbútum sem skerast á mismunandi stöðum og eru studdar af ferhyrndum ramma sem málaðir eru í grænum og rauðum litum.

Heillaðist af litum Íslands

„Ég var að hugsa um liti Íslands,“ segir Jenine Cohen um tilurð verkanna. „Mér þykir vænt um þetta land, ég hef komið nokkrum sinnum áður og haldið sýningar og ferðast, og þessi tegund lita heillar mig. Í húsunum er mikið af rauðum og grænn finnst í náttúrunni, mosinn er út um allt.“

Bakhlið verkanna er máluð í neónlitum sem endurkastast á vegginn.

„Yfirleitt horfir maður beint framan á málverk. Hjá mér þarf að skoða verkin frá mismunandi sjónarhornum – bæði að framan og frá hlið. Þetta er mjög mikilvægt, og lýsingin skiptir líka máli, því verkið tekur sífelldum breytingum í ólíkri birtu – náttúrulegu ljósi eða neonljósi. Svo ég get sagt að málverk mín eru aldrei eins, það er hægt að skoða þau frá ólíku sjónarhorni.“

Í hinum hluta sýningarinnar, seríunni Angles, er áherslan á tómarúmið umhverfis verkið sem byggir á tveimur svörtum þríhyrningum.

Veggurinn sem hluti af málverkinu

„Seinni hluti sýningarinnar snýst um sjónarhornið innan í málverkinu og ramminn veitir aðra tilfinningu fyrir lit. Hin verkin kalla á hreyfingu áhorfandans, en þetta færir hann inn í málverkið. Þetta er önnur leið til að nálgast verkið.“

Þótt verk Cohen séu þrívíð og minni um margt á skúlptúra leggur hún áherslu á að þau séu málverk.

„Mér finnst mikilvægt að kalla þetta málverk, því þetta er ákveðin leið til þess að gefa tilfinningu fyrir blæbrigðum birtunnar. Litirnir endurkastast af veggnum, og sem verður þannig hluti af málverkinu. Ég veit að það fer mikið fyrir þrívíddinni í verkunum, en mér finnst engu að síður mikilvægt að kalla þau málverk.“

Rætt var við Cohen í Menningunni í Kastljósi.