Málar móðurlífið fyrir framan karlaklefann

Mynd: RÚV / RÚV

Málar móðurlífið fyrir framan karlaklefann

12.11.2017 - 15:18

Höfundar

Kolbrá Bragadóttir fékk nóg af reðurtáknum og berbrjósta konum sem prýða veggi líkamsræktarstöðvarinnar World Class í Laugum og ákvað að mála veggmynd af móðurlífinu beint á móti karlaklefanum. Hún hefur fengið sig margskonar viðbrögð, til dæmis frá körlum á miðjum aldri sem eru sumir hverjr að komast að því að móðurlífið er ekki ein stór píka.

„Ég er að vinna hérna sem jógakennari og er myndlistarkona líka,“ segir Kolbrá. „Staðurinn er kappfullur af allskonar reðurvísunum. Það er stórt fallusartákn við innganginn á torginu og sæðisfrumur út um allt. Mig langaði að taka eitthvað kvenlegt hingað inn, eitthvað fallegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eitt af verkunum sem fyrir voru í World Class.

Kolbrá málar myndina fyrir opnum tjöldum og fær allskonar viðbrögð frá gestum og gangandi, jákvæð og neikvæð. Sumum finnist verkið vera klúrt.

„Sérstaklega karlmenn sem eru komnir yfir miðjan aldur og spyrja hvort ég sé virkilega að mála risastóra píku. Þegar ég útskýri að þetta séu æxlunarfæri, líffærafræðina og móðurlífið þá segja þeir: „Einmitt, píka.“ Þá komast þeir að því, fimmtugir karlar og eldri, að þetta heitir ekki allt píka.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

En hvers vegna að mála veggmynd af móðurlífinu í líkamsræktarstöð? „Af hverju ekki? Af hverju er sjálfsagt að ganga hérna um og sjá typpi út um allt og sæðisfrumur án þess að hugsa um það. Af hverju er sjálfsagt að sjá berbrjósta konur eða líkamann en við getum ekki sýnt fæðingarstað okkar? Þetta á að vera sjálfsagt.