Málar í Kaliforníu og Bolungarvík

Mynd: Ómar Sverrisson / Ómar Sverrisson

Málar í Kaliforníu og Bolungarvík

05.06.2018 - 16:34
Elli Egilsson opnaði nýverið sýningu með málverkum eftir sig í Norr 11.

Elli, sem hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina, byrjaði að mála fyrir sex árum. Afraksturinn er sýning sem nefnist Ólíkir heimar. Málverkin málaði hann meira og minna í Crenshaw í Kaliforníu þar sem hann býr ásamt Maríu Birtu Bjarnadóttur konu sinni. Myndirnar eru af íslensku landslagi sem hann málar eftir minni.

Í fyrra stóð Elli að opnun á nýrri vinnustofu í gamalli rækjuvinnslu í Bolungarvík. Vinnustofan er fjögur hundruð fermetra rými sem hafði staðið autt í um 20 ár þar til í fyrra. Þegar vinnustofan opnaði málaði hann í fyrsta skipti á Íslandi.

Elli hefur einnig hannað flíkur sem Pharrell Williams hefur komið fram í. Þar málaði Elli málverk sem hann svo reif í tætlur og púslaði svo saman og gerði feluliti úr. Elli segir að Kanye West eigi einnig svona eintak inni í skápnum hjá sér.

 

Hægt er að hlusta á viðtal úr Núllinu við Ella Egilsson hér að ofan.