Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Mála yfir veggjakrot tvisvar í viku

05.02.2013 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Að meðaltali hefur um þremur milljónum króna verið varið á mánuði í að hreinsa veggjakrot af mannvirkjum borgarinnar. Ýmsar leiðir til að vinna gegn krotinu hafa verið kannaðar, meðal annars hvernig efla megi umhverfisvitund barna og unglinga.

Í Reykjavíkurborg er gengið út frá því að besta ráðið gegn veggjakroti sé að bregðast strax við með því að hreinsa eða mála yfir krotið. Og það hefur sannarlega verið gert.

Í undirgöngunum undir Miklubraut í Reykjavík er stundum málað tvisvar sinnum í viku, til þess að hylja það sem sumir telja frjálsa listsköpun en aðrir vilja kalla krot. Í þessa vinnu fara um fimmtán lítrar af málningu í hvert skipti sem heilmálað er. Stundum er nóg að mála yfir veggjakrot eða svokölluð "tögg" hér og þar. Á ársgrundvelli, sé miðað við tölur síðastliðinna þriggja ára, nemur kostnaður við hreinsunarvinnu 33 milljónum króna. Það gerir tæpar þrjár milljónir á mánuði.

Árið 2008 var veggjakrot kortlagt og í ljós kom að krotið hafði verið á alls 42.000 fermetra að flatarmáli. Árið 2012 var veggjakrot kortlagt að nýju og er fermetratalan komin niður í 23.000. 

Sérstaklega ber að taka fram að graff og veggjakrot er ekki það sama og að sögn kunnugra ber að varast að rugla því saman. Leyfilegt er að graffa á ákveðnum stöðum, eins og til dæmis á Hljómalindarreitnum og aðrar leiðir hafa verið skoðaðar til að vinna gegn veggjakroti sem ef til vill munu skila sér í sparnaði. „Við höfum reynt að vinna með ýmsum sem haft hafa áhuga á graffitíinu og eins vorum við farin að vinna verkefni inni í skólunum,“ segir Guðmundur Vignir Óskarsson, verkefnastjóri umhverfissviðs. „Svona reglubundin verkefni fyrir yngra fólk svona með umhverfisvitund í huga. Það má segja að hrunið hafi dregið úr allri þessari vinnu en mikill áhugi er núna á nýju sviði að taka þessar áherslur upp aftur.“