Mál skýrast í Seðlabankanum fyrir ágústlok

13.08.2014 - 00:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra hallast að því að fjölga þurfi seðlabankastjórum. Umfang starfsemi bankans hafi aukist á skömmum tíma og meiri þörf sé á verkaskiptingu en áður. Starf seðlabankastjóra var auglýst laust til umsóknar í byrjun júní. 10 sóttu um starfið en þrír voru metnir hæfastir.

Það voru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason. Búist var við ákvörðun um ráðningu í síðustu viku en af því varð ekki. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir seinkun hafa sett strik í reikninginn. „Skipunartíminn er bráðum að renna út og þetta er heldur seinna á ferðinni en ég hafði séð fyrir mér, en þetta hefur tekið lengri tíma.“

Ekki runnin út á tíma

Bjarni segir koma til greina að fjölga seðlabankastjórum. Sérstök nefnd sem hafi verið skipuð um málefni bankans hafi meðal annars haft þetta til skoðunar. Bjarni bendir á að umfang starfseminnar hafi vaxið á skömmum tíma. Verði Fjármálaeftirlitið síðan fært nær bankanum eins og rætt hafi verið um, séu rök fyrir fjölgun enn sterkari. Hann segir skýringarnar á seinkun ákvörðunar um ráðningu meðal annars liggja í því að umsækjendurnir þrír hafi haft frest til 23. júlí til að koma á framfæri formlegum athugasemdum um hæfismat þeirra. „Allt tók þetta sinn tíma og svo koma frí inn í þessa mynd líka en við erum ekki runnin út á tíma í þessu þetta tekur einhverja daga í viðbót.“ En hvenær má vænta niðurstöðu? „Skipunartíminn rennur út núna í lok síðustu viku ágústmánaðar og við þurfum að afgreiða málið fyrir þann tíma,“ segir Bjarni.