Mál íslenskrar konu dæmi um mismunun

22.10.2013 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Nefnd á vegum Evrópuþingsins tekur mál íslenskrar konu sem dæmi um annmarka á fyrirkomulagi forræðismála í Danmörku í nýrri skýrslu. Kerfið er sagt mismuna mæðrum af erlendu þjóðerni.

Ein af nefndum Evrópuþingsins tekur sérstaklega til skoðunar ábendingar borgaranna í aðildarríkjunum. Í sumar fór hluti nefndarinnar til Danmerkur til að kanna hvernig stjórnvöld þar tækju á forræðismálum þar sem annað foreldrið er af erlendum uppruna.

Nokkur dæmi um forræðisdeilur
Sendifulltrúarnir hafa nú kynnt nefndinni niðurstöður rannsóknar sinnar. Í skýrslu þeirra eru rakin nokkur dæmi af forræðisdeilum þar sem annað foreldrið er danskt en hitt erlent. Þar á meðal er mál íslenskrar konu sem fór með börnin sín úr landi þegar hún átti í forræðisdeilu við barnsföður sinn. Hún taldi hann beita börnin kynferðisofbeldi en í skýrslunni segir hvernig tuttugu mínútna langt sálfræðiviðtal hafi dugað yfirvöldum til að komast að öndverðri niðurstöðu. 

Danir njóta yfirburða
Út frá þessum dæmum er því haldið fram í skýrslunni að dönsk lög, sem kveða á um forræði beggja foreldra sem meginreglu, geti haft þveröfug áhrif. Mæður sem vilja vernda börn sín gagnvart ofbeldisfullum feðrum geti lent í fangelsi og hætta sé á að feður fái forræði yfir börnum sem þeir hafa beitt ofbeldi. Danskir ríkisborgarar, sérstaklega karlkyns, njóti yfirburða í forræðismálum á meðan erlendum konum finnist sér mismunað. Skýrsluhöfundar telja að með núverandi fyrirkomulagi kunni réttindum og velferð barna að vera stefnt í hættu og því skorar hún á dönsk stjórnvöld að virða alþjóðasáttmála um þessi mál.

Nefnd Evrópuþingsins samþykkti efni skýrslunnar í atkvæðagreiðslu með tuttugu atkvæðum gegn einu.