Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mál Freyju: „Fornaldarviðhorf gagnvart fötlun“

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Manni finnst í fljótu bragði að dómurinn sé háður sömu annmörkum og málsmeðferð stjórnvalda og feli jafnvel í sér brot á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins,“ þetta segir annar lögmanna Freyju Haraldsdóttur um þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að umsókn Freyju um að gerast fósturforeldri hafi fengið sanngjarna málsmeðferð hjá Barnaverndarstofu. Starfandi forstjóri Barnaverndarstofu segir dóminn afdráttarlausan, málsmeðferðin hafi ekki falið í sér mismunun.

Fjögurra ára ferli

Freyja sótti um fyrir fjórum árum og framvísaði jákvæðri umsögn frá barnavernd Garðabæjar. Lögmenn hennar töldu að með því að synja umsókn hennar án þess að bjóða hana á sérstakt námskeið þar sem hæfni umsækjenda er metin hafi Barnaverndarstofa brotið bæði jafnræðisreglu og rannsóknarreglu. Starfandi forstjóri Barnaverndarstofu segir að stofnuninni beri ekki skylda til að bjóða umsækjendum á námskeiðið, teljist þeir ekki uppfylla almenn skilyrði sem gerð séu til fósturforeldra. Um þetta sé dómurinn afdráttarlaus. 

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir er annar lögmanna Freyju:„Í lang, lang, langflestum tilvikum er ferlið þannig að eftir að það kemur jákvæð umsögn frá sveitarfélagi, eins og lá fyrir í þessu máli, er það næsta skref að fara á námskeið hjá Barnaverndarstofu. Þar er skoðað hvernig umsækjandinn er og metið hvort viðkomandi geti verið fósturforeldri og hvernig en án þess að til þess hafi komið var umsókninni synjað.“

Fóstur getur verið tímabundið eða varanlegt.  Nánar má lesa um það í reglugerð um fóstur. 

Sigrún segir gögn sýna að nær undantekningalaust sé fólk boðað á hæfnimatsnámskeið eftir að hafa fengið jákvæða umsögn frá barnaverndarnefnd, það sé aðalreglan. Undantekningartilvikin séu örfá af mörg hundruð og þau mál ekki sambærileg máli Freyju. „Ef það er hefðbundið ferli þarf auðvitað að réttlæta ef vikið er frá því vegna þess að einstaklingur er fatlaður.“ 

Námskeiðið óþarft ef niðurstaðan er ljós

Þeir sem vilja gerast fósturforeldrar þurfa auk greinargerðar frá barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi sínu að skila ýmsum gögnum, svo sem skattframtölum og læknisvottorðum, umsögnum ættingja og vinnuveitanda og greinargerð um ástæður þess að óskað er leyfis til að taka barn í fóstur. Heiða Björg Pálmadóttir, starfandi forstjóri Barnaverndarstofu, segir í samtali við Spegilinn að Barnaverndarstofa geti á grundvelli þessara gagna útilokað að umsækjandi geti talist hæft fósturforeldri og að þá þurfi ekki að boða viðkomandi á hæfnismatsnámskeið. Hún segir dóminn mjög afdráttarlausan hvað þetta varðar, það þurfi ekki að boða fólk á námskeið þyki ljóst að það hafi enga þýðingu, bæti engu við og breyti ekki fyrra mati stofnunarinnar.

Hún segir að þessi ákvörðun hafi ekkert með fötlun að gera heldur einungis það hvort umsækjandi uppfylli almennar kröfur sem gerðar séu til fósturforeldra, félagslegar, heilsufarslegar og fjárhagslegar. Þetta gildi um alla sem sæki um. Málsmeðferðin hafi ekki falið í sér ólögmæta mismunun. Þá segir hún að áður hafi reynt á þetta fyrir dómstólum og Barnaverndarstofa þá verið sýknuð. Sigrún Ingibjörg segir það mál hafa verið ólíkt máli Freyju. „Í því tilviki var neikvæð umsögn frá sveitarfélaginu, ekki jákvæð og það er svo sem held ég óumdeilt að ef þú færð neikvæða umsögn frá sveitarfélaginu þá er ekkert óhefðbundið að umsókninni þinni sé hafnað.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: cc0 - pixabay
Í dómssal.

Dómstóllinn skrifi bara undir málsmeðferð BVS

Lögfræðingar Freyju byggðu á því að Barnaverndarstofa hefði brotið bæði jafnræðisreglu og rannsóknarreglu. Umsókn Freyju hefði ekki fengið sömu meðferð og aðrar umsóknir og málið hafi ekki verið nægilega upplýst því hún fór ekki á námskeið og var ekki metin út frá því. „Barnaverndarstofa hélt því fram að þessi málsmeðferð hefði verið í lagi vegna þess að hún uppfyllti ekki almenn skilyrði til að gerast fósturforeldri og dómstóllinn raunverulega skrifar bara undir þá málsmeðferð. Að einhverju leyti telur maður að sú málsmeðferð, hjá dómstólnum, sé háð sömu annmörkum og málsmeðferðin hjá stjórnvöldum vegna þess að það var ekki fallist á að þetta hefði ekki verið eðlilegt ferli sem hún fór í gegnum og að hún hafi í raun mætt mismunun fyrir að vera fötluð.“  

Hún segir að dregin séu upp atriði sem virki hlutlaus á yfirborðinu en feli í reynd í sér mismunun gegn fötluðu fólki. Til dæmis sé horft á NPA-aðstoð sem galla frekar en styrkleika. Hún telur að dómurinn feli jafnvel í sér brot á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, ekki sé litið til  þess að á ríkinu hvíli skylda til að tryggja að fatlað fólk njóti sömu málsmeðferðar og aðrir. „Þeir líta svolítið þannig á að endurskoðunarvald þeirra á ákvörðunum stjórnvalda, sem snúa að fötluðu fólki, sé eitthvað umdeildara eða takmarkaðra en gengur og gerist. Fyrir vikið, þegar fatlað fólk mætir mismunun og leitar til dómstóla til að leiðrétta þá mismunun þá á þetta fólk erfitt uppdráttar og við þurfum kannski bara að fara að skoða hvort við þurfum að tryggja réttindi fatlaðs fólks betur í löggjöf ef dómstólar geta ekki brugðist við.“ 

Telur fyrirfram mótaðar skoðanir hugsanlega hafa haft áhrif

Í reglugerð um fóstur kemur fram að fósturforeldrar þurfi að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað getur að jákvæðum þroskamöguleikum barns.

Málshöfðun Freyju laut að málsmeðferðinni, en er í dómnum eitthvað fjallað um það hvers vegna Barnaverndarstofa telur hana ekki færa um að verða fósturforeldri? „ Þetta er raunverulega ágreiningur málsins og það sem var meðal annars til skoðunar var þetta viðhorf, að það að búa við fötlun feli í sér að maður búi ekki við almennt góða heilsu. Þetta er fornaldarviðhorf gagnvart fötlun. Fatlað fólk þarf alls ekki að búa við slæma heilsu, heilsan getur alveg verið stöðug eins og hjá öðrum. Þetta er meðal annars það sem var til skoðunar og maður telur mikilvægt að skoða í stærra samhengi, hvernig við lítum á fötlun í samfélaginu.“ 

Hún veltir því fyrir sér hvort fyrirfram mótaðar skoðanir á því hvað fatlað fólk geti eða geti ekki gert hafi haft áhrif á þá meðferð sem mál Freyju fékk. 

Ekki mannréttindi að verða fósturforeldri

Heiða Björg, starfandi forstjóri Barnaverndarstofu, segir að fötlun komi ekki sjálfkrafa í veg fyrir það að einhver geti orðið fósturforeldri. Það sem skipti máli sé hvort fötlunin hafi áhrif á getu viðkomandi til þess að annast barn. „Þegar svo er er réttur barnsins settur ofar rétti þess sem vill verða fósturforeldri,“ segir hún og bætir því við að það séu ekki mannréttindi að verða fósturforeldri. 

Sigrún segir að það séu allir sammála um það að réttindi barns og það hvað er barni fyrir bestu ráði úrslitum þegar verið sé að para fósturforeldra við börn. „En þegar þú ert í almennu umsóknarferli, að það sé ákveðið fyrir fram að vegna fötlunar getir þú ekki sinnt neinu barni frá núll til átján ára, íslensku barni, barni á flótta og allt þar á milli, barni með fötlun, barni með hegðunarvandamál eða barni sem kemur af allt öðrum ástæðum inn í fósturkerfið. Þegar það er ákveðið að þú getir aldrei sinnt neinu barni án þess að hæfni þín sé metin fer maður að velta fyrir sér hvort mismununin sé ekki einmitt gagnvart einstaklingnum sem er fatlaður. Þá erum við ekkert að tala endilega um lokaniðurstöðuna eða hvaða áhrif réttindi barnsins hafa. Það hljóta allir að vera sammála um að það eigi alltaf að gera það sem er börnum fyrir bestu en það má ekki blanda þessu tvennu saman og setja upp, eitt á móti öðru. Það verður auðvitað að gæta að réttindum allra í málsmeðferðinni.“ 

Íhuga nú framhaldið

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort dómnum verður áfrýjað. „Það er ótímabært, þessi dómur féll bara í dag, við erum aðeins byrjuð að skoða hann og á hvaða forsendum hann byggir. Manni finnst í fljótu bragði að hann sé háður sömu annmörkum og málsmeðferð stjórnvalda og feli jafnvel í sér brot á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins en svo þarf að skoða ýmsa þætti þegar verið er að ákveða hvort máli verði áfrýjað. Það ferli fer nú af stað og tekur nokkra daga.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV