Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mál Benedikts gegn Jóni Steinari þingfest

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Meiðyrðamál Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Steinars, fékk fjögurra vikna frest til að skila inn greinargerð í málinu. Benedikt stefndi Jóni Steinari vegna nokkurra ummæla hans um dóm Hæstaréttar í máli Baldurs Guðlaugssonar, sem Jón Steinar kallar ýmist dómsmorð eða líkir við dómsmorð í nýrri bók sinni.

Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld að Jón Steinar hefði reynt að fá þá dómara sem dæmdu í máli Baldurs til að sýkna hann. Jón Steinar er vinur Baldurs og var því vanhæfur til að taka sæti í dómnum.

Í þættinum var vísað til þess að í stefnu Benedikts segir að á meðan mál Baldurs var til meðferðar í Hæstarétti hafi Jón Steinar ítrekað gert sér ferð inn á skrifstofur dómaranna í málinu þar sem hann hafi leitast „við að hafa áhrif á hvernig þeir myndu dæma málið efnislega“.