Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mál Ashkenazi til LRH

12.10.2014 - 20:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan á Húsavík hefur sent mál þyrluþjónustu sem flaug með erlenda auðkýfinga inn á gossvæðið við Holuhraun til Lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort fyrirtækið verði kært fyrir athæfið.

Engin kæra hefur borist þyrluþjónustunni sem lenti með erlendan auðkýfing nærri gosstöðvunum við Holuhraun í síðustu viku. Sýslumaðurinn á Húsavík segir málið í ferli hjá yfirvöldum.

Athygli vakti þegar auðkýfingurinn Goga Ashkenazi frá Kazakstan, fór með þyrlu á vegum Reykjavík Helicopters að gosstöðvunum, og lenti innan bannsvæðis almannavarna. RÚV greindi fyrst frá þegar Goga birti mynd af athæfinu á Instagram. Í kjölfarið var málið athugað af yfirvöldum á Húsavík. Málið hefur nú verið sent Lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, að sögn Svavars Pálssonar. Talsmaður Reykjavík Helicopters segir yfirvöld ekki hafa sett sig í samband við fyrirtækið. Málið sé litið mjög alvarlegum augum og tekið hafi verið á því innanhúss. Endanleg ákvörðun um hvað  verði gert í málinu mun þó verða tekin af yfirvöldum. Þrír Íslendingar hafa verið kærðir fyrir að fara inn á gosstöðvarnar í leyfisleysi, og eiga yfir höfði sér háar fjársektir.

Nokkuð er um að ferðaþjónustufyrirtæki gefi í skyn í auglýsingum sínum að hægt sé að fara nær eldgosinu en leyfilegt er. Fyrirtækið Extreme Iceland birti á Facebook síðu sinni í gær mynd af fólki í heitri náttúrulaug með eldgosið í baksýn. Talsmaður fyrirtækisins sagði í samtali við fréttastofu að hann teldi ekki verið að blekkja neytendur með þessu, þar sem fólk hljóti að átta sig á að myndin sé samsett. Fyrirtækið hefur nú sett inn texta um að átt hafi verið við myndina í myndvinnsluforriti. 

Af Facebook síðu Extreme Iceland