Makrílsamningur kemur á óvart

12.03.2014 - 21:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir sérkennilegt ef Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið hafa náð samkomulagi um skiptingu makrílkvótans, því Norðmenn hafi verið helsta ástæðan fyrir því að samningar tókust ekki í síðustu viku. Stefnt er að fundi í nefndinni á morgun vegna málsins.

Samkomulag til fimm ára

 Samkomulag til fimm ára hefur tekist milli Færeyinga, Norðmanna og ESB um skiptingu makrílkvótans í Norður-Atlantshafi. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra vill ekki tjá sig um málið fyrr en nánari upplýsingar liggja fyrir og sama segir Sigurgeir Þorgeirsson formaður íslensku samninganefndarinnar.

Utanríkisráðherra segir þetta áhyggjuefni

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði á Alþingi í dag að reyndist þetta rétt sé það áhyggjuefni og furðaði hann sig á ESB, Færeyingum og Norðmönnum, en þeir síðastnefndu hafi leikið ljótan leik í málinu öllu saman.

Markar tímamót að mati sjávarútvegsstjóra ESB

Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB segir í yfirlýsingu að samkomlagið marki tímamót og tryggi sjálfbærar veiðar úr stofninum til lengri tíma, Íslendingum standi til boða að ganga inn í samkomulagið á næstunni.

Tíðindin komi á óvart

Birgir Ármannsson formaður utanríkismálanefndar segir að nefndin fjalli um málið á morgun og stefnt sé að því að bæði sjávarútvegs- og utanríkisráðherra komi á fundinn. Tíðindin í dag komi á óvart miðað við stöðuna þegar slitnaði upp úr viðræðunum  í síðustu viku. Þá sé sérkennilegt að samkomulag hafi náðst við Norðmenn, sem hafi helst komið  í veg fyrir samninga í síðustu viku. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi