Makríllinn kemur í sumar

18.06.2015 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons/Ramon FVelasqu
Makríll mun streyma inn í íslenska lögsögu um leið og skilyrði í hafinu verða honum hagstæðari. Þetta er mat Leif Nøttestad, eins helsta makrílsérfræðings norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Þó göngu hans seinki vegna kaldari sjávar muni hann ganga eins langt og hann kemst í fæðuleit.

„Makríll er tækifærissinnuð tegund. Stofninn er mjög stór og samkeppni um fæðu er mikil. En tegundin er bundin af hitastigi sjávar,“ segir Leif en hann segir makrílinn ekki ganga í miklu magni í kaldari sjó en á bilinu 7-8 gráður. Leif bendir á að síld geti til dæmis þolað sjó allt að 0-2 gráður.

Aðspurður hvort seinkun göngunnar muni hafa áhrif á útbreiðslu makríls er Leif ekki viss um að svo verði. „Stofninn er það stór og samkeppni um fæðu mjög mikil. Ef hitastig sjávar verður hagstætt þá mun hann ganga alla leið til Grænlands þegar rétt skilyrði skapast.“ Hann segir útbreiðslu stofnsins aldrei hafa verið meiri. Hún nái yfir 2,5 milljónir ferkílómetra svæði.

Leif kynnti nýlega niðurstöður rannsókna sem benda til að nýliðun makrílstofnsins sé mjög góð. „Neikvæða hliðin er að ástand eldri makríls er ekki nógu gott vegna skorts á fæðu.“

Líkt og hér við land hefur sjórinn við strendur Noregs verið mun kaldari en undanfarin ár. Þá hefur áta í Noregshafi einnig mælst minni í ár líkt og hér við land. Leif segir það þó ekki endilega neikvætt þó það seinki göngu makríls. „Kaldari sjór skapar betri skilyrði fyrir dýrasvifið sem makríllinn sækir meðal annars í.“

Leif telur að sjór þurfi að kólna töluvert og makrílstofninn að minnka svo að göngumynstrið verði aftur í líkingu við það sem það var fyrir 10-15 árum.

Samkvæmt Alþjóðahafrannsóknarstofnuninni (ICES) er hrygningarstofninn í Norður-Atlantshafi metinn á um 4-4,5 milljónir tonna. Leif segir mælingar undanfarinna ára, meðal annars sameiginlegar mælingar íslenskra, norskra og færeyskra vísindamanna, benda til þess að stofninn sé stærri. Hins vegar hafði það ekki verið staðfest og Leif segir mikilvægt að ganga út frá opinberu mati ICES.

Veiðar á makríl á síðasta ári voru þær mestu sem skráðar hafa verið. Enn hafa tölur ekki verið staðfestar en veiðar námu á bilinu 1,2-1,3 milljónum tonna.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi