Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Magnús hyggst kæra framkvæmd kosninga

21.05.2016 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Magnús Ingberg Jónsson hefur ákveðið að kæra framkvæmd kosninga til embættis forseta Íslands. Hann var sá tíundi til að skila inn gögnum til innanríkisráðuneytisins á tólfta tímanum í gærkvöld, en frestur til þess rann út á miðnætti.

Magnús sagðist í samtali við fréttastofu í morgun ekki hafa náð að safna tilskildum gögnum. Hann hafi beðið ráðuneytið um frest í gærkvöld vegna þess að kjörstjórnin í Hafnarfirði gat ekki gefið út vottorð. Þá segir hann að kjörstjórnir hafi brotið á sér í þrígang frá því hann lýsti yfir framboði til forseta Íslands. „Ég á eftir að ráða mér lögmann. Ég held að það sé góð regla að vera ekki að útlista í smáatriðum hver brotin eru fyrr en ég er búinn að ræða við lögmann. Væntanlega verður þessi ákvörðun tekin fljótlega í næstu viku. Að öllu óbreyttu liggur ekki annað fyrir."

Aðrir sem skiluðu inn gögnum áður en frestur rann út á miðnætti eru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson. Ekki hefur náðst í Baldur Ágústsson í morgun.  

Innanríkisráðuneytið fer nú yfir framboðsgögnin og greinir frá því, ekki síðar en næsta föstudag, hve mörg framboð teljist gild.   
 
Kosið verður til forseta  25. júní.

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV