Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Magnús býður sig fram

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Magnús Ingi Magnús­son veit­ingamaður hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann segist myndu verða jákvæður forseti og almúgamaður.

Síðustu árin hef­ur Magnús rekið Sjáv­ar­bar­inn og Texas­borg­ara úti á Granda og veisluþjón­ust­una Mína menn sam­hliða því. Síðustu ár hef­ur hann svo gert sjón­varpsþætt­ina Eld­hús meist­ar­anna sem sýnd­ir eru á ÍNN.

Alltaf langað í framboð

Magnús sagðist í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 alltaf hafa langað í framboð. Þegar hann hafi litið yfir listann yfir frambjóðendur hafi hann talið að hann ætti alveg jafn mikinn möguleika á kjöri og þeir. „Mig langar ekki í pólitískt framboð það er svoddan úlfagryfja þar. Þetta er ágætis grundvöllur til að koma mörgum málum til greina. Það er margt sem mig langar til að gera og sérstaklega skal ég verða yfirlýsingaglaður ef ég næ þessum undirskriftum. Ég er ekkert viss um að það náist.“

Magnús segist hafa fengið mikil viðbrögð eftir að hann tilkynnti um framboðið í gær. „En við verðum að athuga það að maður er ekki kominn í framboð fyrr en maður er kominn með meðmælendur. Þá er maður kominn í framboð. Því að þetta er bara yfirlýsing frá mönnum. Þegar er búið að skila inn lista og kjörstjórnin er búin að gúddera þá, þá er maður kominn í framboð. Það á örugglega eftir að vera eitthvað þungur róður hjá mönnum.“

Aðrir bjóði upp á kleinur, því ekki hamborgara

Magnús Ingi lofaði í gær þeim sem skrifa undir undirskriftalista hans Texas-ost­borg­ara með frönsk­um fyr­ir viðvikið, að því gefnu að þeir hafi náð kosningaaldri. Hann var í Morgunútvarpinu spurður að því hvort hann mætti gera þetta. „Er ekki á þessum kosningaskrifstofum boðið upp á kaffi, kleinur og kökusneiðar? Það er bara handhægt fyrir mig að bjóða upp á hamborgara af því ég er á hamborgastað. Ef það kemur fram að það sé bannað, þá verð ég að fá að vita það. Þá finnst mér svolítið skrýtið að það má ekki bjóða upp á veitingar fyrir viðvikið, að koma þarna og skrifa undir. Þetta er bara svona að góðum íslenskum sið að vera gestrisinn og gefa veitingar.“ 

Magnús segir að það væri tilvalið að bjóða ferðamönnum upp á að koma í heimsókn á Bessastaði eins og boðið sé upp á í Buckingham höll í London og Hvíta húsinu í Washington. „Ég myndi vilja koma því á, opna þetta og vera jákvæður.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV