Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Magnar upp skilaboð sem hvíla í náttúrunni

Mynd:  / 

Magnar upp skilaboð sem hvíla í náttúrunni

10.01.2019 - 12:39

Höfundar

Í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu stendur yfir sýningin Útvarp mýri. Þar sýnir Sigtryggur Bjarni Baldvinsson kyrralífsmyndir ættaðar úr votlendi norður í Héðinsfirði. „Ég upplifi mig á vissan hátt sem fjölmiðlamann eða útvarpsmann þarna úti í mýrinni,“ segir Sigtryggur.

Útvarp mýri er þriðja sýning Sigtryggs Baldvinssonar myndlistarmanns sem tekst á við þær breytingar sem hafa orðið á náttúrunni. „Votlendið er eiginlega mál málanna núna, mér finnst ég aldrei hafa verið meira „mainstream“ en núna. Bæði er ástæða til því að þarna er vonarneisti í sambandi við loftslagsmálin og svo er þarna ónumin fegurð – fegurðina skyldi ekki vanmeta. Þarna má sjá hringrás lífsins og náttúrunnar ótrúlega skarpt og vel. Þarna myndast form og eru litir sem eru allar athygli verðir.“ 

Sigtryggur segir að staldri maður við og horfi nógu lengi á hlutina þá fari maður að hlusta. „Það er eitthvað sem við hefðum þurft að vera búnir að gera fyrir svo löngu löngu síðan, mennirnir. Ég upplifi mig á vissan hátt sem fjölmiðlamann eða útvarpsmann þarna úti í mýrinni til þess að reyna að magna upp þessi skilaboð sem ég held að hvíli í náttúrunni ef við hlustum bara nógu vel á hana.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:

Sýningin skiptist í tvo ef ekki þrjá ólíka hluta. Í hinum hlutanum ganga litir eins af meisturum íslenskrar myndlistar bókstaflega í endurnýjun lífdaga. „Fyrir nokkrum árum síðan fundust – eða rákum við okkur á kassa fullan af þekjulitum. Þessir litir voru frá Karli Kvaran listmálara, sem Karl hafði átt en enginn náð að nota því þeir voru gjörsamlega uppþornaðir og sennilega að flestra áliti ónýtir. Fljótlega varð þetta að hálfgerðri þegnskylduvinnu hjá mér að koma þessum litum í notkun og út í kosmósið.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Sigtryggur byrjaði á því að mala litina niður í matvinnsluvélum en það sem reyndist best hafi einfaldlega verið tíminn og vatnið. „Leyfa þeim að leysast upp í rólegheitunum í krukku. Þá gefa þeir eftir fyrir rest og verða nothæfir.“ Litina hefur hann notað í þremur seríum, þar á meðal einni sem nefnist Allir litir Kvarans, þar sem hann kom öllum 50 litatónunum sem honum áskotnuðust á pappír.

Sýningin Útvarp mýri stendur til 2. febrúar.

Tengdar fréttir

Myndlist

Áhorfandinn býr til myndina í höfðinu

Myndlist

„Hægt að herða að ef maður er mjög kvíðinn“

Tónlist

Safnar aldagömlum tóbakspípum við bakka Thames

Myndlist

Þykjustunni eftirvænting í Ásmundarsafni