Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Magnaðar myndir af eldgosinu

29.08.2014 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Hjalti Stefánsson, myndatökumaður, tók magnaðar myndir af eldgosinu í Holuhrauni í morgun. Myndirnar hafa vakið mikla athygli en þær sýna vel gossprunguna. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í aukafréttatíma Sjónvarps í morgun að það mætti kalla þetta eldgos hálfgert slys.

Gossprungan er talin vera um 1 kílómetri að lengd og liggur norð-austur/suðvestur.  Hraunið er þunnt og rennur hratt til suðausturs í átt að jölkinum. Þetta er hraungos á sprungu, sem virðist liggja eins og margnefndur kvikugangur frá Dyngjujökli í átt að Öskju.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er gossprungan um fimm kílómetra frá jökli og lengsta hraunrennslið er um 500 metrar. Þetta sáu jarðvísindamenn um borð í TF - SIF um tíu leytið í morgun.

Ljósmyndir: Ómar Ragnarsson

Gosið hófst laust eftir miðnætti í nótt, virknin jókst fyrstu tvo tímana en síðan dró úr henni.  Magnús Tumi, segir að ljóst hafi verið á sprungunum, sem sést hafi síðastliðna daga, að mjög stutt hafi verið niður á bergganginn og svo hafi rifnað alveg upp úr í nótt. Hann sagði að gosið virtist hafa lítil áhrif á ganginn, þar væri enn mikil skjálftavirkni og að áfram sé að bætast í hann. „Það virðist enn vera pláss fyrir hann neðanjarðar.“

Ómar Ragnarsson, sem flaug yfir gosið í morgun ásamt Hjalta, sagði gosstöðvarnar vera ákaflega fallegt listaverkagallerí náttúrunnar sem þarna hefði verið skapað á einni næturstund. „Við erum með þetta eins og leirker af alls konar stærðum og gerðum. Frábær sköpun. Ef það er hægt að tala um ferðamannagos þá er það þetta.“


Ekki er talið líklegt að aska frá eldgosinu í Holuhrauni berist upp í lofthjúpinn og því hefur Veðurstofan ákveðið að færa litakóðann fyrir Bárðarbungu af rauðum yfir á appelsínugulan.

Rauður litakóði þýðir að eldgos er yfirvofandi eða hafið og líklegt talið að aska berist upp í lofthjúpinn. Appelsínugult táknar hins vegar að eldstöð sýni aukna eða vaxandi virkni og að möguleiki á eldgosi aukist. 

Vísindamannaráð Almannavarna fundar með vísindamönnum frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans klukkan ellefu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. 

Haftasvæðið umhverfis eldstöðina í Holuhrauni hefur verið minnkað úr tíu sjómílum í þrjár, samkvæmt ákvörðun Samgöngustofu. Svæðið nær enn upp í 5.000 fet yfir jörðu og innan þess er öll flugumferð bönnuð utan vísindaflugs Landhelgisgæslunnar.