Magma á þriðjung í Búlandsvirkjun

24.05.2010 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Suðurorka, félag í eigu Íslenskrar orkuvirkjunar og HS Orku sem er í eigu Magma Energy, áformar að reisa Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi. Raforkuframleiðsla virkjunarinnar yrði um 150 megavött. Félagið hefur samið við flesta vatnsréttarhafa á svæðinu og bíður átekta.

Minnst er á virkjunina sem mögulegan virkjunarkost í rammaáætlun stjórnvalda um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Búlandsvirkjun er ný útfærsla af Skaftárvirkjun þar sem helsta frávikið er að Skaftárveita er ekki forsenda virkjunarframkvæmda.

Landsvirkjun hafði um nokkurt skeið unnið að rannsóknum vegna hennar, en féll frá áformum sínum um að reisa virkjunina. Íslensk orkuvirkjun tók þá við keflinu, keypti rannsóknargögn Landsvirkjunar og réðst í samninga við vatnsréttarhafa og landeigendur. Fyrirtækið stofnaði svo félagið Suðurorku í félagi við HS Orku, sem er nær alfarið í eigu Magma Energy.

HS Orka á þriðjungshlut í Suðurorku en Íslensk orkuvirkjun rest. Guðmundur Ingi Jónsson, einn af eigendum Íslenskrar orkuvirkjunar og situr í stjórn Suðurorku. Hann segir að búið sé að forhanna þennan virkjunarkost og hann sé að verða klár í umhverfismat. Það fari eftir stefnu stjórnvalda hvenær hægt verði að hefja þarna raforkuþjónustu. ,,Björtustu vonir gætu verið eftir fjögur ár ef allt myndi ganga eftir. Það á eftir að taka lengri tíma en það," segir Guðmundur Ingi.

Suðurorka hefur óskað eftir rannsóknarleyfi hjá Orkustofnun. HS Orka getur eignast helmingshlut í Suðurorku í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu ef ráðist verður í byggingu virkjunarinnnar, en kostnaður við verkefnið er um 36 milljarðar króna. Guðmundur Ingi segir að búið sé að lofa í verkefnið 500 milljónum á næstu tveimur árum til að ljúka hönnun og umhverfsmati, til að sjá hvort þetta sé tækur virkjunarkostur.