Mæta auknum kröfum við meðhöndlun úrgangs

20.12.2018 - 13:58
Pappírsendurvinnsla í móttökustöð Sorpu í Gufunesi
Endurvinnsla á pappír hjá Sorpu í Gufunesi. Mynd: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdó
Auknar kröfur og breyttar áherslur við meðhöndlun úrgangs valda því að sveitarfélög á Norðurlandi vilja endurskoða núverandi skipulag sorpmála. Þau vilja auka samstarf sveitarfélaga og fyrirtækja og efla umhverfisvernd, hagkvæmni og nýtingu.

Sveitarfélög á öllu Norðurlandi hafa síðustu ár unnið saman að sorphirðu og förgun úrgangs. Nú vilja þau ganga lengra en hingað til og hafa ráðist í sameiginlegt verkefni um framtíðarskipan úrgangsmála. Meðhöndlun og förgun úrgangs þurfi að vera hagkvæm og umhverfisvæn og í verkefninu eigi að greina leiðir til að auka samstarf.

Auknar kröfur frá samfélagi og löggjafavaldi

Páll Björgvin Guðmundsson, starfandi framkvæmdastjóri Eyþings, segir að þetta snúi bæði að auknum kröfum og breyttum reglum, bæði innlendum og erlendum. „Annarsvegar eru þetta bara kröfur samfélagsins og fyrirtækja um að geta komið úrgangi frá sér á umhverfisvænan hátt. Og svo hinsvegar þessi löggjöf sem er í raun og veru frekar, myndi ég eiginlega segja, að liðka til fyrir því að setja okkur markmið og svo framvegis. Þannig að okkur gangi bara hraðar og betur í þessum málum.“

Nýta mikla þekkingu hjá fólki og fyrirtækjum

Páll segir að starfshópur sem vinnur að þessu verkefni hafi kynnt sér aukna tækni, jarðgerðarstöðvar, líforkuver og fjölbreyttari leiðir fyrirtækja og heimila til að losa sig við úrgang. Á Norðurlandi sé mikil þekking í þessum málaflokki, bæði hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum. Alla þessa þekkingu og reynslu þurfi að nýta ásamt því að greina hve mikill úrgangur fellur til á Norðurlandi og hvaðan hann kemur. „Við höfum notað orðið bestun. En það þýðir í raun og veru það að vinna með úrgang á sem hagkvæmastan hátt, en stilla upp raunhæfum valkostum með umhverfisvernd, hagkvæmni og skynsamlega nýtingu að leiðarljósi,“ segir hann.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi