Bryndís Pétursdóttir er jarðstraumakönnuður og gengur um allar grundir með stálprjóna á lofti. Með þeim mælir hún spennu og strauma í jörðinni.
Þar sem mikil spenna og segulóreiða er í jörðu myndast jarðfræðileg streitusvæði, sem Bryndís segir að ekki sé gott að búa á. Hún segir dýr vera sérstaklega næm, en Bryndís hefur einmitt þjónustað bændur töluvert. Í fjósum og fjárhúsum þar sem spenna er í jörðu segir Bryndís að dýr séu oft veik og gefi af sér litlar afurðir. Bryndís kemur svokölluðum mótvægiskubb fyrir í jörðu á slíkum svæðum en hann á að losa um spennuna. Bóndinn á Stóru Tjörnum í Ljósavatnsskarði segist ekki þurfa lengur að glíma við júgurbólgu í beljunum sínum eftir að kubburinn kom í hús.