Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mælir fyrir þriðja orkupakkanum í dag

08.04.2019 - 12:40
Mynd með færslu
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, mælir á Alþingi síðar í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um þriðja orkupakkann. Óhætt er að segja að umræðan um hann í samfélaginu sé nú þegar orðin fyrirferðarmikil.

Rætt var við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, í beinni útsendingu í hádegisfréttum. Hún var á Alþingi og sagði að ef eitthvað væri að marka yfirlýsingar margra þingmanna á síðustu vikum megi búast við hörðum átökum um málið. 

Guðlaugur Þór mælir síðdegis í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni sem er staðfesting á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Síðan mælir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, fyrir tveimur frumvörpum og einni tillögu sem tengist þessu máli. „Þetta eru sem sagt mál ríkisstjórnarinnar en nýverið fullyrti formaður Miðflokksins að þriðji orkupakkinn væri beinlínis hættulegur og formaður Flokks fólksins vill þjóðaratkvæðagreiðslu um hann,“ sagði Jóhanna Vigdís. Hvað sem því líði þá sé Ísland hluti af EES-samningnum og með þeirri þátttöku þurfi Alþingi að staðfesta þessi mál. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi hins vegar tekið af öll tvímæli á þingi um daginn að engin ákvörðun yrði tekin, þar með talin lagning sæstrengs, nema með samþykki meirihluta Alþingis.

Viðbúið er að umræðan standi fram eftir vikunni. Nokkrir þingmenn eru fjarverandi frá þinginu í dag vegna opinberra funda sem þingstörfunum fylgja.