Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mældu mikla mengun frá skemmtiferðaskipum

30.08.2017 - 10:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Örsmáar agnir í útblæstri skemmtiferðaskipa voru um 200 sinnum fleiri en eðlilegt má teljast, samkvæmt mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands hafa undanfarna daga gert með aðstoð þýsku náttúruverndarsamtakanna Nature and Biodiversity Union. Samtökin telja að gera þurfi kröfu um hreinsibúnað í þessum skipum, eins og er í bílum.

 

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands er bent á að sótagnir sem myndist við ófullkominn bruna svartolíu, ýti mjög undir gróðurhúsaáhrif. Því þurfi að grípa til skjótra aðgerða til að koma í veg fyrir bruna svartolíu á Norðurslóðum. Samtökin telja að stjórnvöld ættu a banna losun brennisteins og bruna svartolíu innan íslensku efnahagslögstögunnar.

Haft er eftir Axel Friedrich, sem var vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar, að vélar eins og séu um borð á skemmtiferðaskipunum, fengju ekki starfsleyfi á Íslandi.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV