Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mæla sýrustig í lambakjöti eftir slátrun

11.12.2018 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Afurðastöðvum sem selja lambakjöt berast reglulega kvartanir frá fólki sem finnst kjötið seigt og ullarbragð af því. Þessu veldur of hátt sýrustig. Í nýliðinni sláturtíð hóf Fjallalamb á Kópaskeri að mæla sýrustig í lambakjöti til að tryggja að ekki fari of súrt kjöt þaðan á markað.

Þessar vikurnar er starfsfólk Fjallalambs að vinna lambakjöt úr sláturtíðinni til að senda í verslanir. Saga niður skrokka af frosnu kjöti og úrbeina hangikjöt fyrir jólavertíðina. Það er enginn sjáanlegur munur á þessu kjöti en gæðamunurinn getur verið talsverður og þar ræður sýrustig í kjötinu miklu. Kjöt með of háu sýrustigi er verra til matreiðslu.

15 til 20 skrokkar teknir til hliðar á dag

„Það lýsir sér í því að þeir sem að kvarta, þeir fá seigt lambakjöt með svona ullarbragði,“ segir Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs. Því hafi fyrirtækið komið sér upp mæli fyrir sláturtíðina til að geta mælt sýrustig í kjötinu. Kjötmatsmaður hafi valið úr alla skrokka sem sýndu þessi einkenni. Af 1200 dilka slátrun á dag hafi þetta verið um 15 til 20 skrokkar að meðaltali. „Þeir eru stífir og þeir bera þess greinileg merki við kjötmat.“

Kjöt með of háu sýrustigi sé skemmd vara

Og í öllum þessum skrokkum var sýrustigið mælt sólarhring eftir slátrun. Væri það of hátt voru skrokkarnir látnir hanga lengur til að fella sýrustigið áður en kjötið var fryst. „Við erum að tryggja það að fá aldrei kvartanir yfir kjöti sem hefur verið fryst með of háu sýrustigi,“ segir Björn Víkingur. „Ef það fer út á markað má eiginlega segja að það sé skemmd vara. Og ástæðan fyrir þessum kvörtunum sem sláturhús fá út af lambakjöti.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV