Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mæla hop jökulsins - „Þetta er bara hræðilegt“

13.06.2019 - 19:43
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RUV
Forsetar Þýskalands og Íslands kynntu sér áhrif hlýnunar á Sólheimajökul í dag. Samkvæmt mælingum barna og unglinga í Hvolsskóla á Hvolsvelli hefur jökullinn hopað um nærri fjögur hundruð metra síðastliðinn áratug. Tveir unglingar, sem hafa komið að mælingunum síðustu ár, segja hopið gríðarlegt og það hafi komið forseta Þýskalands mjög á óvart.

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, er í opinberri heimsókn hér á landi sem lýkur í kvöld en forsetinn og fylgdarlið heimsóttu meðal annars Vestmannaeyjar nú síðdegis þar sem þeir kynntu sér meðal annars nýja varmadælustöð og gengu á Eldfell, en heimsókninni er nú formlega lokið. 

Sólheimajökull hopað um 379 metra frá 2010

Í Hellisheiðarvirkjun fékk Steinmeier stutta kynningu á Carbfix verkefninu, íslenskri aðferð við að binda koltvíoxíð í bergi með niðurdælingu. Þaðan lá leiðin á Hvolsvöll og síðan upp að Sólheimajökli, að skilti sem nemendur Hvolsskóla settu upp fyrir nokkum árum. „Jökullinn hefur hopað 379 metra frá 2010 og hann er núna í 697 metrum frá skiltinu okkar og þegar við byrjuðum var hann í 318 metrum, svo þetta er alveg gríðarlegt hop,“ sögðu þau Vala Saskía Einarsdóttir og Sigurpáll Jónas Sigurðarson.“ 

Heppin að fá að vera partur af þessu

Þegar mælingar nemenda Hvolsskóla hófust 2010 var ekkert lón sjáanlegt og því eru breytingarnar miklar á þessum stutta tíma. „Á þessum tíma, ég fór fyrir fjórum árum, hann fyrir þremur þá gerðum við okkur ekki grein fyrir því hversu mikið hop þetta var og hversu merkilegt þetta verkefni væri. En ég held að núna í dag séum við að horfa til baka og gera okkur grein fyrir því hversu merkilegt þetta var og hversu heppin við erum að fá að vera partur af þessu, til þess að sjá hvað er að verða um jörðina okkar, því þetta er bara hræðilegt,“ sögðu þau Vala og Sigurpáll. 

„Íslendingar þekkja breytingarnar af eigin raun“

Guðni og Steinmeier gengu að lóninu við jökulinn sem stækkar ár frá ári og fer að þrengja að gönguleiðinni að jökulsporðinum. Á annan tug þýskra blaða- og fréttamanna fylgdu forsetunum í heimsókninni og Steinmeier vildi greinilega nýta ferðina til að vekja landa sína til umhugsunar um áhrif hlýnunar jarðar og hrósaði um leið Íslendingum og áherslu þeirra á að bregðast við. „Við sem erum gestir frá útlöndum sjáum þetta vel en Íslendingar þekkja breytingarnar af eigin raun. Því umgangast þeir náttúruna af tillitsemi og virðingu og eru ákveðnir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Steinmeier við Sólheimajökul í dag.