Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mæður gefa börn sín af ást

15.02.2018 - 18:40
Mynd: wikimedia commons / wikimedia commons
Ástandið í Venesúela fer versnandi frá degi til dags. Foreldrar grípa í auknum mæli til þeirra örþrifaráða að senda börn sín á munaðarleysingjahæli eða skilja þau eftir á opinberum stöðum, þar sem þeir geta ekki brauðfætt þau. Fólk gerir þetta af því það elskar börn sín, segir félagsráðgjafi á stærsta munaðarleysingjahæli Venesúela.

Stjórnmálaþróun í Venesúela á 21. öldinni.

Hugo Chavez var kjörinn forseti Venesúela árið 1998. Hann boðaði opið stríð gegn spillingu og auðmönnum landsins og ríkisvæðingu olíuauðsins til þess að draga úr fátækt og óréttlæti. Þegar hann lést, 15 árum síðar, hafði ríkið tekið milljónir hektara lands eignarnámi og ríkisvætt hundruð fyrirtækja í landinu, þar á meðal risastór olíufélög. Chavez var alla tíð ákaflega vinsæll á meðal hinnar fátæku alþýðu landsins, hann jók félagslega þjónustu, þar á meðal matargjafir og íbúðastyrki, heilsugæslu og alla grunnmenntun. Þegar hann tók við völdum var helmingur þjóðarinnar undir fátæktarmörkum, við andlát hans lifðu 30 af hundraði undir fátæktarmörkum.

Arftaki hans, Nicolas Maduro, hét því að feta í fótspor Chavez. Honum hefur mistekist það hrapallega. Að hluta til er það vegna utanaðkomandi áhrifa og að hluta til vegna spillingar, segja gagnrýnendur hans. Maduro hefur sveigt og beygt lýðræðið í landinu að vild til að geta haldið völdum. 

Stjórnarandstæðingar náðu meirihluta í kosningunum árið 2016, en Maduro tókst í nokkrum skrefum að gera þingið áhrifalaust. Þá um haustið svipti Hæstiréttur þingið áhrifum af efnahagsmálum og í mars 2017 var þingið leyst upp. Í fyrrasumar voru svo haldnar kosningar til þess að leysa þingið af hólmi, stuðningsmenn Maduro unnu öll 545 sætin. Sósíalistaflokkur Maduros sigraði í 17 af 23 fylkisstjórakosningum í október og í 90 prósentum af öllum bæjarstjórakosningum sem haldnar voru í lok síðasta árs. Forsetakosningar verða í apríl. Maduro hefur boðað framboð sitt og bannað öllum stjórnarandstöðuflokkum að taka þátt í kosningunum.

Í fyrravor brutust út mikil mótmæli gegn stjórnvöldum. Þau kostuðu 130 mannslíf og 4.800 manns voru handteknir.

Ríkið hefur einangrast mikið á síðustu árum. Það var rekið úr viðskiptabandalaginu Mercosur fyrir tveimur árum og Samtök Ameríkjuríkja (OAS) lögðu til að Venesúela yrði rekið úr samtökunum í fyrra nema Maduro boðaði til kosninga. Maduro varð fyrri til og sagði ríkið úr OAS mánuði síðar.

Ríkisstjórn Donalds Trumps lagði viðskiptabann á varaforseta landsins og átta dómara Hæstaréttar á fyrri helmingi síðasta árs og hefur bætt á listann síðan, þ. á m. forsetanum sjálfum. Þrátt fyrr núning á milli bandarískra og venesúelskra stjórnvalda eru Bandaríkjamenn áfram stærsta viðskiptaland Venesúela. 

Venesúela er þó ekki vinalaust. Bólívía, Ekvador og nokkur ríki Karíbahafsins eru áfram vinveitt og Kínverjar hafa lánað stjórnvöldum 60 milljarða dala frá aldamótum. Þá hafa Rússar verið trúfastir viðskiptavinir Venesúela þegar kemur að olíuviðskiptum.

Svarta gullið

Olía leikur lykilhlutverk í efnahag Venesúela. Hún skapar 95% af útflutningstekjum ríkisins og er fjórðungur þjóðarframleiðslu landsins. Hið ríkisrekna fyrirtæki Petroleos de Venezuela S.A. stjórnar allri vinnslu og sölu á olíu. Efnahagur landsins stóð á brauðfótum árið 2014. Þá tók heimsmarkaðsverð á olíu að hríðfalla og frá 2014 til 2016 fór verðið á olíufatinu úr 111 Bandaríkjadölum niður í 27 dali og þá má segja að brauðfæturnir hafi molnað undan efnahag Venesúela. Verðbólgan fór upp í 800 prósent, í byrjun þessa árs var hún komin í 4.000 prósent og AGS spáir því að í árslok verði hún komin í 13.000 prósent. Þegar svo er komið er þjóðfélagið í raun í frjálsu falli.

Efnahagskreppan

Afleiðingar efnahagskreppunnar eru margvíslegar og alvarlegar fyrir alla alþýðu landsins. Verulegur skortur er á nauðsynjavörum í landinu og fer versnandi frá degi til dags. Má þar nefna skort á matvöru, hreinlætisvörum og lyfjum. Svartamarkaðsbraskið blómstrar og gjaldeyrishöft hafa haft þau áhrif að opinbert gengi Bandaríkjadals er 10 bólívarar, en á svartamarkaði er hægt að fá þúsundir bólívara fyrir dalinn.

Og fátækt eykst hratt. Háskólarannsókn sem gerð var árið 2016, leiddi í ljós að 87 prósent almennings sagðist ekki eiga til hnífs og skeiðar. Önnur rannsókn sýndi fram á að 30 prósent barna á grunnskólaaldri voru vannærð.

Barnadauði jókst um 30 prósent á árinu 2016 miðað við árið 2014 og mæðradauði jókst um 65 prósent á sama tíma. Sjúkdómar á borð við malaríu og barnaveiki, sem tekist hafði að útrýma hafa blossað upp að nýju.

Sérfræðingar halda því ennfremur fram að eignarnám og ríkisvæðing hafi dregið enn frekar úr framleiðni. Transparency International sem fylgist með spillingu í ríkjum heims (og þar er Venesúela í 166. sæti af 176 löndum) segir að meira en 500 ríki séu í ríkiseigu, en til samanburðar má nefna að í Brasilíu, sem er sex sinnum fjölmennara land, eru 130 ríkisrekin fyrirtæki.

Hungrið rekur foreldra til örþrifaráða

Fátæktin og hungrið hefur rekið æ fleiri foreldra til þess að grípa til örþrifaráða. Fréttaritari Washington Post í Suður-Ameríku segir frá því að æ fleiri foreldrar sjái sér ekki aðra leið færa en að gefa frá sér börnin sín. Þeir fara með þau á munaðarleysingjahæli þar sem þau vita að börnin þeirra fá að borða. Eða, það sem verra er, skilja þau eftir á opinberum stöðum með miða og biðja finnanda þeirra að koma barninu til hjálpar.

Magdelis Salazar, félagsráðgjafi á stærsta munaðarleysingjahæli Venesúela, segir blaðamanni að foreldrar geri þetta ekki vegna þess að þeir elski ekki börnin sín, heldur þvert á móti vegna ástar.

Blaðamaðurinn segir ljóst, eftir samtöl við 10 munaðarleysingjastofnanir, að hundruð barna hafi verið yfirgefin eða send á munaðarleysingjahæli í fyrra.

Angélica Pérez, 32ja ára þriggja barna móðir, segir blaðamanni að hún hafi ekki átt annarra kosta völ en að koma börnum sínum fyrir á munaðarleysingjahæli. Hún á tvær dætur, 5 og 14 ára og 3ja ára dreng. Hún starfaði sem saumakona en missti vinnuna fyrir nokkrum mánuðum og þegar yngsta barnið hennar fór að fá alvarleg einkenni húðsjúkdóms og sjúkrahúsið var uppiskroppa með lyf, varði hún síðustu aurunum í smyrsl í lyfjaverslun. Eftir það sá hún sér þann kost vænstan að koma börnum sínum fyrir, tímabundið vonar hún. Hún ætlar nú að ferðast til Kólumbíu, leita sér að vinnu og snúa svo aftur til að ná í börnin sín. Til þess hefur hún sex mánuði, eftir það verður börnunum komið fyrir í varanlegru fóstri eða þau ættleidd.

Stjórnvöld í Kólumbíu, og Brasilíu reyndar líka, tilkynntu hins vegar fyrir skemmstu að þau hygðust herða verulega eftirlit við landamærin að Venesúela. Talið er að yfir hálf milljón hafi flúið frá Venesúela til Kólumbíu á síðari hluta ársins 2017 og að alls hafi meira en ein milljón flúið þangað frá því að kreppan komst á flug árið 2015.

Engar getnaðarvarnir leiða til vítahrings

Annar fylgifiskur vöruskorts og fátæktar er að getnaðarvarnir eru af skornum skammti, sem leiðir til enn annars vítahrings, æ fleiri konur verða þungaðar og geta ekki séð börnum sínum farborða. Fóstureyðingar eru ólöglegar í Venesúela, sem aftur hefur leitt til hörmulegra tilrauna kvenna til að framkvæma ólöglegar fóstureyðingar í heimahúsum. Washington Post hefur eftir hjúkrunarfræðingi í höfuðborginni, Caracas, að fyrir skemmstu hafi verið komið með konu sem hafði reynt að eyða eigin fóstri með því að blanda saman steinselju og þvottaefni og dæla því upp í leggöngin á sér. Það tókst að bjarga konunni, en ekki fóstrinu og konan varð ófrjó.

Skortur á getnaðarvörnum hefur líka leitt til þess að kynsjúkdómar breiðast út á ógnarhraða. T.a.m. hefur skráðum HIV-tilfellum fjölgað um helming frá 2014.

Er ferðamennska lykillinn út úr vesældinni?

Marleny Contreras ferðamálaráðherra Venesúela lýsti því nýlega yfir að ferðaþjónusta væri olían sem aldrei myndi þverra og sagðist hún binda miklar vonir við hana í framtíðinni. Hún virðist vera nokkuð einmana í þeirri skoðun sinni. Vanessa Sojo, hótelstjóri El Egua hótelsins 50 kílómetra norður af Caracas segir t. a. m. við Washington Post að það muni aldrei gerast. Gestum á hóteli hennar hafi fækkað um 80 prósent á síðasta ári og að heilu dagarnir geti liðið á milli þess sem gestir leigi sér herbergi.

Hótelin sjálf eru ekki burðug mitt í hyldjúpri kreppu og alltumlykjandi vöruskorti. Mörg þeirra eru farin að skammta gestum sínum salernispappír og þess eru dæmi að innfæddir fara rænandi hendi um hótelin, steli þaðan flestu steini léttara, ljósaperum og handklæðum, svo dæmi séu tekin.

Helmingur allra sjónvarpa á hóteli Sojo er bilaður, og enga varahluti að fá. 

Þá er erfitt að reiða sig á verðlag á hótelum og veitingastöðum í landi þar sem verð hækkar á hverjum degi, ef ekki oftar. Enda er nú svo komið að landið er næstneðst á lista þjóða yfir vöxt í ferðamennsku meðal þjóða heims, einungis Jemen er neðar. Einungis 15 flugfélög fljúga núorðið til Venesúela og hefur þeim fækkað um helming á síðustu tveimur árum.

Eitt af því sem fælir ferðamenn hvað mest frá því að heimsækja landið er vaxandi ofbeldi í landinu, en það hefur aukist samfara vaxandi örbirgð og hungri, eðlilega, má segja. Árið 2016 var morðtíðnin í landinu 91,8 á hverja 100.000 íbúa (til samanburðar er morðtíðni í Bandaríkjunum 5 á hverja 100.000).

Washington Post rekur dæmi af hóteli í strandbænum Chichiriviche. Fyrir tveimur árum var hótelið þéttsetið Evrópu- og Bandaríkjamönnum en nú eru útlendingar álíka sjaldséðir þar og hvítir hrafnar. Þar dúkkaði svo upp belgískur ferðamaður í fyrravor. Bæjarbúar fréttu af útlendingi í bænum og fyrr en varði réðust sex grímuklæddir og vopnaðir menn inn á hótelið, ruddust inn á herbergi Belgans og tóku allt sem hann átti; farsímann, fötin hans, allt.

Venesúlenska samfélagið er á heljarþröm. Þar ríkir mesta verðbólga sem þekkist á byggðu bóli og það eina sem virðist bíða almennings eru sex ár í viðbót með Maduro á forsetastóli og aukið hungur og örbirgð. Óvíða á jarðarkringlunni má sjá púðurtunnur sem eru eins nálægt því að springa í loft upp.

Hægt er að hlusta á pistilinn í spilaranum hér fyrir ofan.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV