Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Maðurinn fundinn heill á húfi

28.08.2018 - 02:35
Mynd með færslu
 Mynd: Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Maðurinn sem leitað var að á Fjallabaki fyrr í kvöld fannst skömmu fyrir klukkan tvö. Hátt í 200 björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Suðurnesjum fóru af stað í umfangsmikla leit eftir að neyðarboð barst frá neyðarsendi á Fjallabaki fyrr í kvöld en staðsetning skilaboðanna var óljós. Líklegt er að maðurinn nái til byggða í fylgd björgunarsveita á milli klukkan 5 og 6 í nótt.

Maðurinn, sem var erlendur ferðamaður, er heill á húfi. Hann var einn á ferð og fannst innst í svonefndu Jökulgili sem gengur inn af Landmannalaugum í átt að Torfajökli. Hann hélt sig í tjaldi. 

Jón Hermannsson, hjá svæðisstjórn Björgunarsveita í Rangárvallasýslu, segir að maðurinn hafi verið blautur og kaldur þegar hann fannst. „Veðrið var búið að vera vont. Við höfðum vissan ótta og vara á okkur. Ef hann hefði ekki getað búið um sig í tjaldinu þá hefði hann orðið fljótt ofkældur út af rigningu og kulda. Það er snjór í fjöllunum þarna. Það var ekkert annað að gera en að beita öllu afli til að finna manninn sem fyrst,“ segir Jón.

Maðurinn er lagður af stað gangandi í bíla björgunarsveitarinnar í fylgd björgunarmanna sem bera farangur hans. „Hann var einn á ferð og hafði misst af veðurviðvörunum. Hann hafði kannski ekki tæki til að hlusta á það eða tungumálakunnáttu til að fylgjast með því,“ segir Jón.

Björgunarsveitirnar vissu ekki þegar leitin hófst hvort einn eða fleiri hefðu sent neyðarboðið. Þrír sambærilegir neyðarsendar eru til á landinu. Haft var upp á eigendum hinna neyðarsendanna og því voru sterkar vísbendingar um það að hverjum væri leitað.

„Við erum með búnað til að lesa úr neyðarmerkinu þegar það kemur frá honum. Það var svo vont veður að það tók smá tíma að finna manninn í umhverfinu. Hann var í grænu tjaldi, sem er ekki það auðveldasta að sjá í landslaginu þarna. Það féll inn í umhverfið,“ segir Jón.

Fréttin hefur verið uppfærð.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV