Maðurinn er hluti af vef lífsins

Mynd með færslu
 Mynd:

Maðurinn er hluti af vef lífsins

20.02.2014 - 14:05
Stefán Gíslason fjallar um líffræðilega fjölbreytni í pistli sínum í dag og er til lesturs hér að neðan.


Hugtakið líffræðileg fjölbreytni heyrist ekki ýkja oft í umræðum manna á meðal. En einmitt þetta, þ.e.a.s. fjölbreytileiki lífríkisins, skiptir okkur meira máli en margir gera sér grein fyrir.

 Líffræðileg fjölbreytni getur í grófum dráttum falist í tvennu, annars vegar í fjölbreytni tegundanna, þ.e.a.s. í fjölda þeirra tegunda af lífverum sem hafast við á tilteknu svæði, og hins vegar í fjölbreytni innan hverrar tegundar, þ.e.a.s. í því hversu breytilegir einstaklingarnir eru. Reyndar er þetta ekki alveg svona einfalt, því að þegar talað er um líffræðilega fjölbreytni er líka stundum átt við fjölbreytni vistkerfa, þ.e.a.s. hversu ólík vistkerfin á svæðinu eru, hvort sem átt er við einstök landssvæði, landið allt eða jörðina eins og hún leggur sig.

 Sem dæmi um mikilvægi fjölbreytileikans innan hverrar tegundar getum við tekið bónda sem á stóra kornakra þar sem hann ræktar bara eina tegund af korni, og það sem meira er, bara eitt afbrigði af tegundinni. Reyndar er hægt að ganga enn lengra en það. Ég kom t.d. einu sinni í ákaflega stórt gróðurhús í Svíþjóð, sem var fullt af litlum furugræðlingum, kannski svona nokkrum milljónum. En hvað sem græðlingarnir voru margir, þá voru þetta upphaflega bara þrír einstaklingar. Eigandinn hafði sem sagt valið þrjú tré, sem voru öðrum trjám fremri í vaxtarhraða, vaxtarlagi og hvað það nú var, og út frá þessum þremur trjám átti svo að búa til nýjan skóg. Fræðilega séð gætum við sem sagt fundið akur eða skóg, þar sem ekki er bara ræktuð ein tegund, heldur líka bara einn einstaklingur tegundarinnar.

 En ég er ekki enn búinn að útskýra þetta með mikilvægi fjölbreytileikans. Það er kannski best gert með því að benda á hættur fábreytileikans. Á stórum akri eða í stórum skógi þar sem bara er ræktuð ein tegund, og jafnvel bara einn einstaklingur, getur nefnilega verið hætta á stórum áföllum. Við þessar aðstæður er allur akurinn eða allur skógurinn jafnviðkvæmur fyrir breytingum, t.d. lækkun eða hækkun hitastigs, minni eða meiri úrkomu, tilteknu sníkjudýri eða óvæntri sveppasýkingu. Þar sem breytileikinn er meiri er líklegt að þeir hæfustu lifi áföllin af, þannig að tjónið verði snöggtum minna en ella. Þessi sömu lögmál gilda í náttúrunni. Því meiri sem breytileikinn er, þeim mun auðveldara á heildin með að mæta áföllum og þróast. Reyndar getum við sem best teygt þetta enn lengra og talað um menningarlega fjölbreytni. Það myndi t.d. ekki fara vel fyrir þjóðinni eða fyrir mannkyninu ef allir væru eins og ég, jafnháir, jafnþungir, viðkvæmir fyrir sömu sjúkdómum, með ofnæmi fyrir sama matnum, með sömu menntun, sömu áhugamál, já og bara almennt með sömu veikleika og sömu styrkleika. Í svoleiðis samfélagi yrði lítil sem engin nýsköpun og líklega hefði þá öll þessi þjóð dáið í sömu farsóttinni.

 Lítum nú aðeins á fjölbreytileika tegundanna. Í sinni einföldustu mynd er hægt að mæla hann með því að telja tegundir lífvera sem þrífast á tilteknu svæði á tilteknum tíma. Um leið og einni nýrri tegund er bætt við eykst þannig fjölbreytileikinn. En ef nýja tegundin er ágeng eru allar líkur á að tilkoma hennar dragi úr líffræðilegri fjölbreytni áður en langt um líður. Dæmi um þetta er m.a. að finna á svæðum þar sem alaskalúpína hefur breiðst yfir holt og hæðir og er orðin allsráðandi þar sem áður var holtasóley, krækiberjalyng, geldingahnappur og fjöldinn allur af öðrum lágvöxnum plöntutegundum.

 Stundum fáum við þá flugu í höfuðið að einhver tiltekin tegund í nánasta umhverfi okkar sé óæskileg. Slíkar hugdettur geta alveg átt rétt á sér þegar um er að ræða ágengar tegundir sem eru í þann veginn að þurrka út fá fjölbreytni sem fyrir er, en stundum teljum við einhverja tegund óæskilega bara vegna þess að við erum hrædd við hana eða finnst hún ógeðsleg. Þetta gengur stundum svo langt að við skerum upp herör gegn þessari einu tegund. Áður en ráðist er í slíkan hernað er þó hollt að velta því fyrir sér hvort tegundin skipti einhverju máli í lífkeðjunni og hvort það sé nú alveg öruggt að hernaðaraðgerðirnar beinist ekki líka óvart að öðrum tegundum, sem eru hvorki skelfilegar né ógeðslegar. Það getur t.d. verið tvíeggjað sverð að ráðast til atlögu gegn köngulóm utan á húsum. Þær eru jú bara hluti af náttúrunni og sjá m.a. um það fyrir okkur að halda flugum í skefjum, alveg óumbeðnar og ókeypis. Og hernaður gegn fiðrildalirfunum í limgerðinu eða blaðlúsunum í rósabeðinu getur svo sem líka haft aukaverkanir. Öll þessi kvikindi eru jú hugsanlega fæða fyrir einhver önnur dýr sem okkur er vel við, t.d. vegna þess að þau syngja svo fallega, eða þá að eitrið sem við notum í hernaðinum leggur óvart önnur og okkur þóknanlegri kvikindi að velli líka og sveltir í burtu náttúrulega óvini leiðinlegu kvikindanna. Það má t.d. alveg velta því fyrir sér í þessu samhengi hvort sé betra að eiga garð með fiðrildalirfum og máríuerlum, eða hvorugu.

 Hernaður gegn tilteknum meindýrum í landbúnaði úti í hinum stóra heimi er annað og stærra dæmi um aukaverkanir sem geta hlotist af því þegar við grípum inn í gang mála í náttúrunni. Nú virðast t.d. miklar líkur á því að notkun skordýraeiturs með virka efninu neónikótínoíð eigi þátt í verulegri fækkun í býflugnastofnun víða um heim. Það var náttúrulega alls ekki ætlunin að drepa býflugur með þessu efni, því að þær veita okkur mikla þjónustu sem við getum illa lifað án. Þetta átti jú bara að drepa óæskileg skordýr.

 Vorið 1992 undirrituðu þjóðir heims sérstakan samning um líffræðilega fjölbreytni, þar sem er að finna ýmis ákvæði um skyldur þjóðanna til að viðhalda fjölbreytninni. Ísland hefur líka sínar skyldur hvað þetta varðar, en Ísland gerðist formlegur aðili að samningnum árið 1994. Áratugurinn sem við lifum nú á, þ.e.a.s. áratugurinn 2011-2020 er einmitt áratugur líffræðilegrar fjölbreytni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ákvörðunin um að helga þennan áratug þessu tiltekna máli var ekki tekin út í bláinn. Síðustu ár og áratugi hafa loftslagsbreytingar, útþensla byggðar, eyðing skóga, votlendis og kóralrifja og aðrar athafnir manna nefnilega þrengt svo mjög að líffræðilegri fjölbreytni að jaðrar við hrun. Nú er t.d. talið að 34.000 tegundir plantna og 5.200 dýrategundir séu í útrýmingarhættu, þ.á.m. ein af hverjum átta fuglategundum. Svona slæm hefur staðan ekki verið frá því á tímum risaeðlanna.

 Viðleitnin til að viðhalda fjölbreytninni snýst ekki bara um umhyggju fyrir náttúrunni, heldur búa ólíklegustu tegundir lífvera yfir efnum og eiginleikum sem geta skipt sköpum fyrir líf manna á jörðinni um langa framtíð.

 Þegar ég var lítill prjónaði mamma á mig lopapeysu. Einn góðan veðurdag dróst illilega til í peysunni þegar ég festi hana í gaddavír. Ég gat ekki lagað þessa skemmd með góðu móti og vildi auðvitað síður að mamma kæmist að þessu. Á þessum árum vissi ég ekkert hvernig svona prjónaskapur virkaði, þannig að ég greip til þess ráðs að klippa lykkjuna snyrtilega af peysunni. Þetta tókst vel, alla vega fljótt á litið, en fyrr en varði byrjaði peysan að rakna upp, og hefði eyðilagst ef ekki hefði verið gripið til björgunaraðgerða. Lífríkið er svolítið eins og lopapeysa. Inngrip sem virðast saklaus og hnitmiðuð í fyrstu geta haft ólíklegustu aukaverkanir. Og þó að við teljum okkur vita mikið um náttúruna, þá erum við oft í svipaðri stöðu og ég með peysuna forðum daga. Eða eins og indíanahöfðinginn orðaði það: „Maðurinn óf ekki vef lífsins. Hann er bara hluti af þessum vef. Og það sem gerir vefnum, það gerir hann sjálfum sér“.