Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Maður verður að snerta allar tilfinningarnar

Mynd: RÚV / RÚV

Maður verður að snerta allar tilfinningarnar

12.06.2018 - 17:03

Höfundar

„Að sjá fólk með fötlun eiga fulltrúa í menningarheiminum er mög mikilvægt skref í átt að jafnrétti. Úr þeirri átt kem ég, ég veit að það eru fleiri eins og ég í heiminum að gera ýmislegt og vonandi færir það vogarskálarnar í framfaraátt,“ segir Gaelynn Lea tónlistarkona sem kom fram á tónleikum á Listahátíð í Reykjavík og tók þar að auki þátt í málþingi um tónlistaraktívisma fatlaðra.

Gaelynn hóf fiðlunám fyrir 20 árum, þegar tónlistarkennari liðsinnti henni með að smíða tækni sem hentaði líkamsbyggingu hennar. Hún kemur fram í rafmagnshjólastól og heldur á fiðlu eins og litlu sellói. Lengst af einbeitti Gaelynn sér að tónlistarflutningi en byrjaði að prófa sig áfram í tónsmíðum fyrir nokkrum árum. „Ég hafði aldrei samið lag þegar ég var 27 ára en svo kom það bara upp úr þurru. Svo samdi ég fleiri lög og varð að finna einhverja leið til að flytja þau. Ég nota lúppufetil til að raða hljómunum upp eða lagskipta þeim, og svo syng ég yfir þá. Þegar ég fann þessa leið sá ég alls konar möguleika í flutningi laganna þó að ég sé ekki alltaf með hljómsveit með mér. Ég þurfti að æfa mig stíft í um tvö ár áður en ég treysti mér til að flytja lögin opinberlega,“ segir hún.

Textinn er í forgrunni í tónsmíðum Gaelynn. „Þegar ég sem lög einblíni ég mikið á textann. Tónlistin umlykur svo textann eftir á en ég byrja alltaf á orðunum. Ég fór til tónlistarkennarans og hún var tilbúin að hjálpa mér að læra á annan hátt af því að ég er með styttri handleggi. Ég gat ekki haldið fiðlunni á öxlinni eins og allir aðrir svo við fundum leið til að spila á hana upprétta eins og selló. Þannig hef ég spilað í 24 ár,“ segir hún.

Eintómt myrkur ekki endurnærandi

Tónlist Gaelynn mætti helst skilgreina sem þjóðlagatónlist sem er bæði melankólísk og glaðvær. „Eitt af því sem dregur mig að því að skapa tónlist og flytja hana á tónleikum er að bjóða fólki upp í tilfinningalega ævintýraför. Maður verður að snerta allar tilfinningarnar. Ef þetta væri eintómt myrkur væri þetta ekki eins endurnærandi.“ 

Gaelynn berst fyrir réttindum fatlaðra einstaklinga á fjölbreyttan hátt; hún heldur erindi, skrifar greinar og flytur boðskap sinn óbeint gegnum tónlistarflutninginn. „Ég lít fyrst og fremst á mig sem tónlistarmann og ég elska tónlist en ég hef tekið eftir því í menningu okkar, sem er eflaust svipað hér, að réttindi fólks með fötlun eru ekki mikið til umræðu. Þess vegna fór ég að flytja fyrirlestra. Ég kem fyrirlestrunum mínum fyrir á tónleikaferðalögum og þar ræði ég réttindi fatlaðra og hvernig stuðla megi að þátttöku fólks með fötlun í listalífinu,“ segir hún. 

„Fólk áttar sig ekki á því hve margar hömlurnar eru og hversu aftarlega á merinni fólk með fötlun situr þegar kemur að mannréttindum. Þar er margt óunnið. Að geta komist inn í sömu byggingar er ágæt byrjun. Við höfum ekki einu sinni náð þeim áfanga enn. Ef við tölum ekki um þetta breytist það aldrei og þess vegna vil ég ræða það við öll tækifæri. Ég geri það ekki á tónleikum af því að ég er tónlistarmaður og vil hafa hafa tónlistina í forgrunni þar, en tónlistarflutningur er ákveðin birtingarmynd aðgerðarstefnu.“

Nánari upplýsingar um Gaelynn má finna hér. Tónleikar hennar hér á landi voru teknir upp og verða fluttir á Rás 1 sunnudaginn 24. júní klukkan 16:00. 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Landakortið sem tónverk

Klassísk tónlist

Saga allra stríða

Myndlist

Minningar í rústum sýrlenskra heimila

Dans

Samband sköpunar og eyðingar