Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Maður treysti þessum erlendu ráðgjöfum“

25.05.2016 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Nýjar upplýsingar um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003, styrkja þann grun um að villt hafi verið fyrir íslenskum stjórnvöldum. Þetta segir Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra.

Umboðsmaður Alþingis kynnti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær bréf þar sem fram kemur að honum hafi borist nýjar upplýsingar um aðkomu þýska bankans á kaupum á eignarhluta íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum. Þær séu efni til frekari rannsóknar.

Valgerður telur að upplýsingarnar, sem enn eru trúnaðarmál, bendi til þess að þýski bankinn hafi verið leppur fyrir innlenda fjárfesta.

„Já það er það sem mér datt nú í hug. Því það er nú margt búið að koma í ljós í sambandi við öll þessi mál á síðustu árum. Það eru nú orðin ein þrettán ár síðan þetta var sem að gefur til kynna að þeir hafi ekki vílað hlutina fyrir sér. Ýmsir þeirra allavega,“ segir Valgerður. 

Valgerður sagði í Kastljósi viðtali í apríl 2010 að ágallar hefðu verið á einkavæðingu íslensku bankanna. Hún hafi fyrst fengið að heyra einungis degi fyrir söluna á Búnaðarbankanum, hvaða erlendi banki kæmi að kaupunum. Það hafi ekki verið sá stóri erlendi banki sem um var talað en ráðherra og framkvæmdanefnd um einkavæðingu stóðu í þeirri trú að stór og traustur franskur banki kæmi að kaupunum. Ber hún þá ekki sök í málinu?

„Ja það verður bara að koma í ljós. Málið er það að við vorum með erlent ráðgjafafyrirtæki sem ráðlagði okkur í sambandi við þessa einkavæðingu og kostaði þar mikla fjármuni. Og maður treysti þessum erlendum ráðgjöfum, sennilega alltof vel, frá HSBC. Því það kemur í ljós bæði í sambandi við Búnaðarbankann og Landsbankann að það er ekki allt með felldu.“

Valgerður segir að á sig hafi runnið tvær grímur þegar hún áttaði sig á því að um lítinn þýskan banka hafi verið að ræða, en ekki franska bankann Societé General eins og talið var.
 
„Já mér fannst það ekki alveg eðlilegt. En eins og ég segi, þetta fyrirtæki sem ég treysti sá ekki ástæðu til þess að hætta við söluna.“

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður

Tengdar fréttir