Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Má kaupa helmingi meiri bjór í Fríhöfninni

03.06.2016 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Breytingar sem gerðar voru á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld þýða að kaupa má helmingi meiri bjór í komuverslun Fríhafnarinnar en áður. Ef menn ætla að kaupa sterk vín máttu ekki kaupa eins mikið af bjór með því. Breytingin var eitt af fjölmörgum frumvörpum sem voru samþykkt á Alþingi í gær.

Breytingin gengur í stuttu máli út á það að kaupa má sex svokallaðar einingar, og er það skilgreint nákvæmlega í lögunum hvað hver eining er. Þetta eru 0,25 l af sterku áfengi, 0,75 l af léttvíni og 3 l af bjór.

Í dag er fyrirkomulagið í komuverslun Fríhafnarinnar þannig að alltaf má kaupa að minnsta kosti sex lítra af bjór. Með því er síðan hægt að kaupa einn lítra af léttvíni og einn af sterku víni, eða þá fjórar léttvínsflöskur. Ef menn vilja kaupa meiri bjór en minna af léttvíni er það hægt, en hámarkið er 12 lítrar af bjór, sem jafngildir tveimur kössum af hálfslítra bjór.

Með nýju lögunum má kaupa helmingi meira af bjór en áður, eða samtals 18 lítra, ef ekki á að kaupa neitt annað. Ætli maður hins vegar að kaupa lítra af sterku víni verður aðeins hægt að kaupa sex lítra af bjór með því, sem er minna en áður. Og ætli menn að kaupa fjórar flöskur af léttvíni geta menn með nýju lögunum keypt aðeins sex lítra af bjór, en ekki níu eins og nú er hægt.

Heildartekjuáhrif óveruleg

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrifin af þessu verði aukin sala í komuversluninni, en samdráttur í verslunum ÁTVR, sem nemi 1-2%. Á móti aukist skil áfengisgjalds í komuversluninni, og þar að auki verður sett inn ákvæði sem bannar að pöntunarverslun sé rekin í komuversluninni. Fjármálaráðuneytið telur því að nettóáhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs verði óveruleg.

Hvað breytist?

Hér má sjá samanburð á því með dæmum hvað má kaupa nú, og hvað má kaupa eftir þessa lagabreytingu.

Núna:
12 l af bjór
9 l af bjór, 1 l sterkt vín
9 l af bjór, 2 léttvínsflöskur
6 l af bjór, 1 l léttvín og 1 l sterkt vín
6 l af bjór, fjórar léttvínsflöskur

Eftir lagabreytingu:
18 l af bjór
9 l af bjór, 3 léttvínsflöskur (2,25 l)
9 l af bjór, 0,75 l af sterku víni
6 l af bjór, einn l af sterku víni
6 l af bjór, fjórar léttvínsflöskur (3 l)
6 léttvínsflöskur (4,5 lítrar)
1,5 l af sterku víni
0,75 l af sterku víni og þrjár léttvínsflöskur (2,25 l)

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV