Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Má ekki neita barni skráningu í þjóðskrá

09.02.2015 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Óheimilt er að neita barni, sem staðgöngumóðir gekk með, um skráningu í þjóðskrá eða viðurkenna faðerni þess eða móðerni, samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn úrskurðaði í fyrra að franska ríkið hafi brotið gegn réttindum barns sem varð til með staðgöngumæðrun.

Franska ríkið neitaði að skrá barnið og viðurkenna faðerni eða móðerni þess. Íslenska ríkinu hefur verið stefnt í samskonar máli.

Hjón sem komu til landsins frá Bandaríkjunum í maí 2014 með tvíbura sem þau höfðu eignast með aðstoð bandarískrar staðgöngumóður hafa stefnt ríkinu og þjóðskrá. Faðerni barnanna hefur verið viðurkennt en móðurinni verið neitað um viðurkenningu á því að hún sé móðir barnanna, í lagalegum skilningi. Vitað er um að minnsta kosti fjögur önnur samskonar mál þar sem foreldrar hyggja á málsókn gegn íslenska ríkinu.

Svipað mál kom upp í Frakklandi í fyrra. Þar er staðgöngumæðrun ólögleg eins og hér á landi. „Mannréttindadómstóllinn segir bara að þetta fari gegn mannréttindasáttmálanum og rettindum barna til friðhelgis fjölskyldu og einkalífs og í því felist nefnilega réttur til auðkenningar og réttur til skráningar,“ segir Þyrí H. Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður.

Mannréttindadómstóllinn úrskurðaði að horfa verði á barnið og réttindi þess óháð því hvernig það kom til. Málið hefur vakið athygli og orðið til þess að dómstólar í Svíþjóð og Þýskalandi hafa úrskurðað á sama hátt. 

Staðgöngumæðrun hugsanlega leyfð
Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður lagt fram á Alþingi á næstu vikum. Hrefna Friðriksdóttir dósent í fjölskyldu og erfðarétti sem tók þátt í að semja frumvarpið sagði í fréttum í gær að gengið væri út frá því að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni stangist á við grunnreglur íslenskra laga eða siðferðiskennd. Þyrí segir að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé leyfð í Bandaríkjunum og vel sé haldið utan um framkvæmdina. Fólk sem komi þaðan lendi þá ekki bara í vandræðum með að skrá börnin sín, heldur eigi einnig yfir höfði sér kæru. „Eiga þá það á hættu þar að auki að fá á sig hreinlega kæru eða ákæru og vera dæmd til refsingar fyrir að gera þetta og þá hlýtur maður að spyrja sig hverra hagsmuna er þá verið að gæta, það er þá alla vega ekki verið að gæta hagsmuna þessara barna.“