Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lýsti vonbrigðum sínum við Mike Pompeo

15.02.2019 - 18:21
Mynd:  / 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti vonbrigðum sínum með að Bandaríkjamenn hafi dregið sig úr Parísarsamkomulaginu þegar hún átti fund með utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag. Þá hvatti hún til þess að böndum yrði komið á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Jafnframt lýsti hún áhyggjum yfir því að samkomulag við Rússa væri í uppnámi.

Katrín átti óformlegan tuttugu mínútna fund með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í ráðherrabústaðnum um tvöleytið í dag.

„Annars vegar setti ég á dagskrá að ræða loftslagsmál og lýsti vonbrigðum mínum með það, og vonbrigðum okkar með það að Bandaríkin hafi dregið sig út úr Parísarsamkomulaginu. Síðan ræddum við líka kjarnorkuafvopnun og þá stöðu sem er uppi þar sem samkomulag Bandaríkjamanna og Rússa er auðvitað í uppnámi um áframhaldandi afvopnun. Og ég lýsti áhyggjum mínum af þeirri stöðu. Þeirri sýn að það sé auðvitað mjög mikilvægt að koma böndum á útbreiðslu kjarnorkuvopna í heiminum til að tryggja betur öryggi okkar allra,“ segir Katrín.

En voru mannréttindamál og tilefni mótmælanna fyrir utan ráðherrabústaðinn rædd?

„Utanríkisráðherra tók þau mál upp. Við ákváðum það fyrirfram að hann myndi nýta sinn tíma sem var rýmri til þess að taka þau mál upp. Við fengum bæði afhenta áskorun um að við tækjum  það upp og hann tók þau mál upp við hann á sínum fundi,“ segir Katrín.