Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lýsir vanþóknun á framkomu í garð verkamanna

09.02.2019 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra lýsir vanþóknun á þeirri meðferð sem rúmenskir verkamenn hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu þurftu að þola og að flýta þurfi aðgerðum. Hann fundaði með aðilum vinnumarkaðarins og eftirlitsstofnunum um málið í morgun.  Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að beita verði úrræðum sem lögregla, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit hafi.

Fréttastofa hefur rætt við framkvæmdastjóra nokkurra þeirra fyrirtækja sem voru í viðskiptum við starfsmannaleiguna Menn í vinnu og Rúmenarnir störfuðu hjá. Fyrirtækin eru í byggingariðnaði og veitingaþjónustu. Allir þeir sem rætt var við fordæmdu meðferð starfsmannaleigunnar á starfsmönnunum og sögðust alfarið ætla að hætta viðskiptum við hana. Tvö fyrirtæki hafa ráðið verktakana beint til sín eftir að upp komst um málið.

Nokkur fyrirtækjanna höfðu hafið viðskipti við Menn í vinnu að nýju í lok síðasta árs, eftir að hafa hætt þeim tímabundið eftir umfjöllun Kveiks í haust. Starfsmannaleigan hafi staðhæft við þá að búið væri að leiðrétta það sem betur hefði mátt fara í starfseminni í kjölfar Kveiksumfjöllunarinnar og að réttindi verktaka væru virt í hvívetna. Auk þess sögðust framkvæmdastjórarnir hafa gert ráð fyrir því að rannsókn hafi hafist á fyrirtækinu eða úttekt gerð á því á vegum hins opinbera og fyrst það væri enn starfandi hlytu úrbætur að hafa farið fram.

Forseti ASÍ sagðist líka fréttum RÚV í gær hafa gert ráð fyrir að búið væri að taka á málinu, enda langt liðið frá umfjölluninni. Öll fyrirtækin sögðust hafa fengið afrit af launaseðlum Rúmenanna, samkvæmt ákvæðum í lögum um keðjuábyrgð, en ekkert hafi verið athugavert við þá. Það hafi því verið áfall að heyra fréttirnar af starfsmannaleigunni. Allir sem rætt var við kölluðu eftir því að eftirlit með starfsmannaleigum yrði hert og viðurlög yrðu við brotum á réttindum starfsmanna.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra fundaði með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandinu, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitinu í morgun og lýsir vanþóknun á þeirri meðferð sem rúmensku verkamennirnir þurftu að þola og segir ljóst að hrinda þurfi tillögum starfshóps um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði í framkvæmd sem allra fyrst, sem og nauðsynlegum lagabreytingum sem gera þarf.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir hægt að stöðva svona framkomu. Það þurfi að samhæfa aðgerðir og einhver þurfi að taka ábyrgð á þessu. „Verkalýðsfélögin geta ekki verið stíga inn sem félagsmálastofnanir aftur og aftur heldur þarf að beita úrræðum sem lögreglan hefur, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið, skatturinn og svo kemur til kasta stéttarfélaganna að reikna út laun og krefjast þeirra.“