Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lýsir trausti á Bjarna Bjarnason

18.09.2018 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitunnar, lýsir trausti á Bjarna Bjarnason, sem verið hefur forstjóri. Borgarstjóri vill bíða eftir niðurstöðu úttektar á málefnum Orkuveitunnar áður en hann svarar því hvort hann ber traust til Bjarna. Stjórn Orkuveitunnar ákveður á morgun hver tekur við sem forstjóri.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, upplýsti stjórn Orkuveitunnar og borgarstjóra á miðvikudaginn um ákvörðun stjórnar Orku náttúrunnar að reka Bjarna Má Júlíusson úr starfi framkvæmdastjóra eftir að upp komst að hann hafi sýnt samstarfsfólki sínu óviðeigandi hegðun. Borgarstjóri staðhæfir að hann hafi ekki fyrr en þann dag frétt af uppsögn forstöðumanns einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar. Dagur segist ekki hafa tæmandi upplýsingar um einstök mál og að hann muni ekki kalla eftir þeim.   

Upplýsingar um ásakanir um kynferðislegt ofbeldi Þórðar Ásmundssonar, sem átti að taka við starfi Bjarna Más, bárust inn á upplýsingafund stjórnar Orkuveitunnar á föstudaginn og átti stjórnin þátt í þeirri ákvörðun að hann yrði ekki ráðinn. 

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitunnar, lýsir yfir trausti á Bjarna Bjarnason sem óskað hefur eftir því að víkja tímabundið sem forstjóri Orkuveitunnar. „Ég ber traust til forstjórans en aftur, ég vil benda á að hann hefur stigið til hliðar tímabundið og við munum skoða öll mál og allar hliðar þessa máls og ég vil benda á að við sem stjórn og ég sem stjórnarformaður tek þessu gríðarlega alvarlega.“

Brynhildur segir að á stjórnarfundi á morgun verði tekin ákvörðun um hver taki við sem forstjóri. Það verði þó ekki fjármálastjórinn, segir Brynhildur. Hann hlaut skriflega áminningu frá Orkuveitunni fyrir þremur árum fyrir að hafa áreitt tvær samstarfskonur sínar kynferðislega.

„Þetta eru auðvitað alvarleg mál og þarf að taka alvarlega og vinna af festu og það sýnist mér stjórn Orkuveitunnar, sem er með þetta á sínu borði, vera að gera sem er mikilvægt og ég er ánægður að sjá,“ segir Dagur. 

Þegar hann er spurður hvort traust ríki í garð Bjarna Bjarnasonar segir hann að enginn í stjórn Orkuveitunnar hafi lýst yfir vantrausti á Bjarna. „Ég held að það hafi verið rétt skref hjá honum að stíga til hliðar þannig að það gefist fullt svigrúm til þess að fara yfir málið og svo verði farið yfir málið þegar niðurstaða þess liggur fyrir.“

Hvað með þig sjálfan? „Ég bíð eftir þessari úttekt, auðvitað og ég held að það sé bara mjög mikilvægt að gefa bæði stjórn og fyrirtækinu öllu svigrúm til þess,“ svarar Dagur. 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV