Lýsandi sagði Suarez svindlara - skammaður

Mynd með færslu
 Mynd:

Lýsandi sagði Suarez svindlara - skammaður

07.01.2013 - 17:33
Breskur sjónvarpslýsandi hjá ESPN sjónvarpsstöðinni var skammaður af yfirmönnum sínum fyrir að segja Luis Suarez, framherja Liverpool, vera svindlara í lýsingu sinni á leik Liverpool gegn Mansfield í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu.

Suarez skoraði síðara mark Liverpool sem vann utandeildarliðið Mansfield, 2-1 í gær.  En áður en hann skoraði markið mikilvæga lagði hann boltann fyrir sig með hendinni og Jon Champion, sem lýsti leiknum fyrir ESPN, sagði þegar atvikið var endursýnt: "Ég er hræddur um að þetta sé verk svindlara."  ESPN birti í morgun yfirlýsingu þar sem stöðin fordæmir ummæli Champions.  "Ritstjórnarstefna ESPN er að lýsendur eiga að vera hlutlausir og heiðarlegir og að þeir eigi að segja hluti eins og þeir sjá þá" segir í yfirlýsingunni.  "Óhjákvæmilega felst í þessu að menn verða að feta eftir mjórri línu á stundum, sérstaklega í hita augnabliksins.  Ummæli í leik Liverpool gegn Mansfield móðguðu suma þótt þeim væri alls ekki ætlað að gera það og við höfum rætt við lýsandann um þetta atvik."

Atvikið er aðeins það síðasta í langri röð þar sem Suarez kemur við sögu, en hann þykir einkar lunkinn við að koma fólki upp á móti sér.  Skemmst er að minnast átta leikja bannsins sem hann var dæmdur í á síðustu leiktíð fyrir að beita Patrice Evra, leikmann Manchester United, kynþáttaníði.  Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði eftir leikinn að líklega myndi atvikið ekki vera til umræðu ef einhver annar leikmaður hefði handleikið boltann.  "Stundum fylgja svona hlutir bara leikmönnum.  Þetta er hluti lífs hans.  Hann tekur því ótrúlega vel.  Hann hefur breitt bak og hefur haft það allt sitt líf" sagði hann í viðtali.