Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lýsa yfir vilja til ríkisstjórnarsamstarfs

Mynd:  / 
Stjórnarandstöðuflokkarnir, Píratar, Vinstri græn, Björt framtíð og Samfylkingin lýsa yfir vilja til ríkisstjórnarsamstarfs að loknum kosningum fái þeir meirihlutaumboð kjósenda til þess. Þetta kom fram eftir fund þeirra á Lækjarbrekku í morgun.

11:55 Fréttin hefur verið uppfærð

Viðræður stjórnarandstöðuflokkanna um samstarf eftir kosningar héldu áfram í morgun á Lækjarbrekku. Að loknum fundinum sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna að full ástæða væri til að kanna möguleika á myndun meirihlutastjórnar ef flokkarnir fá til þess umboð í kosningunum. „Kjósendur eiga fyrsta og síðasta orðið,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.

Píratar, Samfylking, Björt framtíð og Vinstri græn hafa fundað undanfarið um mögulegt samstarf flokkanna að kosningum loknum en Píratar boðuðu til fundanna. Formenn flokkanna funduðu í morgun á Lækjarbrekku og fyrir fundinn sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, ólíklegt að einhverjar niðurstöður yrðu á fundinum. „Það á eftir að kjósa og það eru kjósendur sem eiga fyrst aog síðasta orðið,“ sagði hann áður en hann gekk til fundarins. Hann sagði það þó ekkert óeðlilegt að flokkarnir ræddu saman, enda ljóst að núverandi ríkisstjórn væri fallin. Fengju flokkarnir meirihluta eftir kosningar væri eðlilegt að þeir ræddu saman.

Skömmu eftir að fundi lauk, skrifaði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna á Facebook að full ástæða væri til að skoða ríkisstjórnarsamstarf að loknum kosningum.

„Við höfum nú á tveimur fundum skoðað kosningaáherslur flokkanna og finnum mikinn samhljóm. Við teljum samstarf þessara flokka vera skýran valkost við núverandi stjórnarflokka sem getur skapað ný tækifæri fyrir íslenskt samfélag. Á grundvelli þessa teljum við fulla ástæðu til að kanna möguleika á myndun meirihlutastjórnar ef þessir flokkar fá til þess umboð í komandi kosningum,“ skrifar Katrín.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tekur undir þetta á Facebook og segir flokkana hafa fundið mikinn samhljóm.

Í sama streng tóku formenn hinna flokkanna eins og heyra má á meðfylgjandi myndskeiði. 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir
Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV