Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lýsa yfir vantrausti á Pál Magnússon

14.06.2018 - 08:32
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum lýsir yfir vantrausti á Pál Magnússon og getur ekki lýst yfir stuðningi við hann sem þingmann Suðurkjördæmis. Páli, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur verið vikið úr fulltrúaráðinu vegna framgöngu hans í nýliðnum sveitastjórnarkosningum.

Mbl.is greindi fyrst frá því að Páli hefði verið vikið úr ráðinu.

Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum, segir að haldinn hafi verið auka aðalfundur í gær, vegna þess að nokkrir úr fulltrúaráðinu hafi verið í framboði eða stutt klofningsframboðið Fyrir Heimaey. Á fundinum hafi verið kosið nýtt fulltrúaráð. „Á þeim lista sem var lagður fyrir Sjálfstæðisfélag Vestmannaeyja var nafn Páls Magnússonar ekki, og sá listi var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum,“ segir Jarl.

Aðspurður hvort Páll hafi beitt sér fyrir annað framboð fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, segist hann ekki geta sagt það, en bendir á að Páll hafi ekki lýst yfir stuðningi við framboð Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar þegar hann var inntur eftir því af fjölmiðlum. „Og það er algjörlega fordæmalaust, að oddviti flokks í kjördæmi styðji ekki flokkinn í sinni heimabyggð.“

Páll hafi ekki stutt flokkinn fyrir kosningar

Páll hafi ekki gert neitt til að styðja flokkinn í þeirri erfiðu kosningabaráttu sem flokkurinn stóð frammi fyrir í Eyjum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. „Það var greinilegt að hans stuðning var ekki að finna við framboð okkar og við lítum svo á að fólk sem ekki styður okkur, það getur varla verið í okkar innsta hring og við getum ekki sett traust okkar á það,“ segir Jarl.

Þannig að hann nýtur ekki trausts ykkar? „Algjörlega ekki nei, við lýstum yfir fullu vantrausti á þingmanninn,“ segir Jarl.

En getur ráðið stutt Pál sem þingmann Suðurkjördæmis? „Nei, það teljum við ekki.“

Fulltrúaráðið hefur óskað eftir fundi með forystu Sjálfstæðisflokksins vegna málsins. Jarl vill ekki gefa upp hvað ráðið mun fara fram á við forystuna, en segir mikilvægt að ræða málið. Á vef Fréttablaðsins er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að hann muni ræða þetta mál við sitt fólk en hann vildi ekki tjá sig neitt frekar. Ekki hefur náðst í Pál Magnússon.